Hafa 12 vikur til að leggja fram ákæru

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Gunnar Gunnarsson

Rannsókn á skotárás sem átti sér stað í Dalseli á Egilsstöðum 26. ágúst s.l. miðar „ágætlega“, að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara. Þá er verklag lögreglu einnig til skoðunar, segir Kolbrún innt eftir því.

„Það er alltaf skoðað í svona tilvikum. Þetta telst vera alvarleg atvik þar sem einhver slasast alvarlega vegna aðgerða lögreglu þá er það alltaf skoðað, hvort sem það er grunur um eitthvað refsivert eða ekki. Þannig samhliða þessari rannsókn á meintum brotum byssumannsins þá er verklag lögreglu í skoðun líka.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Í umræddri skotárás hafði maður farið vopnaður haglabyssu og riffli á heim­ili ann­ars manns sem hann var að leita að. Sá maður hafi hins vegar ekki verið heima þegar byssumanninn bar að garði. Heim­ild­ir herma þó að börn mannsins hafi verið heima og flúið þar sem þeim stóð ógn af byssumann­in­um sem hafði skotið á rúðu í húsinu á móti áður en lögreglan kom á staðinn.

Nokkur fjöldi varð vitni að árásinni

Fjöldi íbúa í Dalseli urðu varir við skotárásina sem stóð yfir í rúman hálftíma að sögn vitna. Minnst einn varð vitni að því þegar byssumaðurinn var skotinn í aðgerðum lögreglu. Skýrslutökur í tengslum við skotárásina hafa gengið vel, segir Kolbrún innt eftir því.

„Það er búið að taka fullt af skýrslum, ég get ekki sagt það nákvæmlega núna hvort það sé búið að taka skýrslur af öllum en það er búið að ná nokkuð vel utan um þessar skýrslutökur.“

Að sögn sjónarvotts skaut lögreglan byssumanninn í kviðinn eftir að hann neitaði að leggja niður vopn sín. Maður­inn var svo flutt­ur til aðhlynn­ing­ar í Reykja­vík með sjúkra­flugi. Sak­born­ing­ur hef­ur nú verið flutt­ur af gjörgæslu og yfir á al­menna deild þar sem hann sæt­ir gæslu á sjúkra­húsi. Líðan mannsins er ágæt eftir atvikum að sögn Kolbrúnar.

Óvíst er hvort maðurinn verði ákærður

Ekki liggur fyrir hvort maðurinn verði ákærður fyrir skotárásina enda sé rannsókn málsins ekki komin á það stig enn þá segir Kolbrún innt eftir því. Ákveðin afstaða sé þó fólgin í því að maðurinn var settur í gæsluvarðhald segir hún.

„Það gefur ágætar vísbendingar um að við teljum að þarna hafi verið framið brot sem varðar fangelsisrefsingu en svo verður bara tekin afstaða til þess eftir því hvað kemur út úr rannsókninni. Það er ekkert hægt að segja um það á þessu stigi hvort hann verði ákærður eða ekki.“

Samhliða rannsókn á meintum brotum byssumannsins er verklag lögreglu einnig í skoðun að sögn Kolbrúnar.

„Það er alltaf skoðað í svona tilvikum. Þetta telst vera alvarlegt atvik þar sem einhver slasast alvarlega vegna aðgerða lögreglu þá er slíkt alltaf skoðað, hvort sem það er grunur um eitthvað refsivert eða ekki.

Erfitt er að segja til um hve langan tíma mun taka að rannsókna málið segir Kolbrún innt eftir því. Sakborningur muni þó sæta gæsluvarðhaldi til 10. september hið minnsta.

„Við reynum að flýta þessu, sérstaklega þegar menn eru í gæsluvarðhaldi en það eru ákveðnar rannsóknir sem þurfa að eiga sér stað og þess vegna er erfitt að segja hversu margir daga eða vikur þetta verða. Það er þó þannig að við höfum aldrei lengri tíma en tólf vikur. Við getum ekki haft menn í gæsluvarðhaldi lengur án þess að gefa út ákæru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert