Brotnu eggin eru alltaf konur

Elif Shafak hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í dag.
Elif Shafak hlýtur alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í dag. Ljósmynd/Fer Hatelik

Tyrknesk/breski rithöfundurinn og mannréttindafrömuðurinn Elif Shafak tekur í dag, laugardag, við alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness og þykir mikið til heiðursins koma en þau eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma.

„Þessi verðlaun hafa mikla þýðingu fyrir mig vegna þess að þau eru ætluð höfundum héðan og þaðan sem þykja hafa lagt eitthvað af mörkum til bókmennta og frásagnarhefðarinnar í heiminum. Það á ekki síst við á tímum sem þessum þegar svo margt bjátar á í heiminum. Ég er ofboðslega glöð og þakklát fyrir þessa viðurkenningu,“ segir Elif í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins. 

Hún kemur víða við í viðtalinu. Allra augu eru á Afganistan þessa dagana vegna brotthvarfs bandaríska hersins og í framhaldinu valdatöku talibana. Elif segir ástandið þar þyngra en tárum taki.

„Ég er mjög sorgmædd yfir þróun mála þar um slóðir. Það sem á sér stað er með öllu óásættanlegt og ólíðandi. Ég er ekki að gagnrýna brotthvarf Bandaríkjahers sem slíkt, það varð á einhverjum tímapunkti að eiga sér stað, en það þurfti ekki að vera með þessum hætti sem raun ber vitni. Ringulreiðin er algjör. Realpólitíkin gengur út frá því að óhætt sé að brjóta nokkur egg til að búa til eggjaköku. En hvers vegna eru brotnu eggin alltaf konur eða minnihlutahópar? Það er gjörsamlega óásættanlegt að alltaf megi fórna þessum hópum. Líf kvenna eru í hættu í Afganistan. Eins líf minnihlutahópa. Svo eru það allar eigur fólks, bækurnar og heilu bókasöfnin. Um þetta er aldrei talað, vegna þess að það þykir ekki skipta máli í heimi realpólitíkurinnar. Við megum ekki yfirgefa konur í Afganistan og láta karla sem brjóta mannréttindi leika lausum hala í landinu. Vestrænir stjórnmálamenn ættu að skammast sín!“

Elif Shafak var tilnefnd til hinna virtu Booker-verðlauna árið 2019 …
Elif Shafak var tilnefnd til hinna virtu Booker-verðlauna árið 2019 fyrir skáldsögu sína 10 mínútur og 38 sekúndur í þessum undarlega heimi. AFP


Talibanar hafa ekki breyst

– Hvað mun gerast í Afganistan á næstu mánuðum og misserum?

„Í fyrsta lagi er barnalegt að halda að talibanarnir hafi breyst. Það er ekkert til sem heitir nýtalibani. Það er bara sjálfsblekking. Talibanar eru í eðli sínu öfgafullir bókstafstrúarmenn sem túlka trú sína sér í hag og engum öðrum. Þess vegna ryðja þeir konum og öðrum sem ekki aðhyllast hugmyndafræði þeirra kinnroðalaust úr vegi. Og það þýðir ekkert fyrir okkur á Vesturlöndum að fela okkur á bak við fjarlægðina, ofbeldisverk geta haft áhrif þvert á heimsálfur, auk þess sem við, mannkyn, erum bundin órofa böndum og okkur ber að hjálpa öðru fólki í neyð. Af einhverjum ástæðum höfum við glatað hinni alþjóðlegu samstöðu. Endurvekjum hana!“

– Þú sagðir einu sinni í viðtali við breska blaðið The Guardian að karlar í Tyrklandi skrifuðu en konurnar læsu og að þú vildir breyta þessu. Hvernig gengur það?

„Hægar en ég vildi. Stundum finnst mér meira að segja að um afturför sé að ræða. Sum samfélög hafa tilhneigingu til að fara aftur á bak frekar en áfram og á umliðnum árum hefur það verið raunin í Tyrklandi. Ríkið verður sífellt þjóðernissinnaðra og strangtrúaðra og forræðishyggjan eykst eftir því, sem bitnar að sjálfsögðu á mannréttindum. Þrengt er að réttindum kvenna, hinsegin fólks og jafnvel rithöfunda vegna þess að þeir eru frjóir og uppfullir af hugmyndum sem ekki eru alltaf yfirvöldum að skapi. Og það er ennþá erfiðara að vera kvenkyns rithöfundur enda þurfum við að glíma við aukalag af kynlægum fordómum.“

Ríki sem virðir ekki málfrelsi

Sjálf hefur Elif ekki farið varhluta af þessu en hún var ákærð árið 2006 fyrir að móðga tyrknesku þjóðina með því að fjalla um þjóðarmorð á Armenum á dögum Ottómanlýðveldisins í heimsstyrjöldinni fyrri í skáldsögu sinni The Bastard of Istanbul en tyrknesk yfirvöld hafna því að þau hafi átt sér stað. Hún var sýknuð en hefði ella þurft að sitja í allt að þrjú ár í fangelsi. Þá sætti Elif nýverið rannsókn fyrir að fjalla um barnaníð og kynferðisofbeldi í 10 mínútum og 38 sekúndum í þessari undarlegu veröld. Spurð hvernig sambandi hennar við stjórnvöld í Tyrklandi sé háttað í dag svarar Elif:

„Við erum að tala um ríki sem virðir ekki málfrelsi fólks og án þess hafa bókmenntirnar ekki svigrúm til að anda. Því miður geta stjórnvöld í Tyrklandi móðgast yfir öllu og engu, hvort sem það er sett fram í bókum, blaðaviðtölum eða jafnvel tístum. Jafnvel endurtíst getur verið næg ástæða til að sækja fólk til saka, hrifsa af því vegabréfið, reka það úr landi eða setja það í fangelsi. Umburðarlyndið er ekkert og engin virðing borin fyrir lýðræði, fjölbreytni eða fjölhyggju. Það er ekki hlaupið að því að gagnrýna stjórnvöld í Tyrklandi og málin verða ekki viðkvæmari en þjóðarmorðið á Armenum. Mál eins og barnaníð og kynferðisofbeldi eru líka eldfim, þannig að það kemur mér alls ekki á óvart að bækur mínar sæti rannsóknum og að ég sé dregin fyrir dómstóla.“

Hún býr í Lundúnum og hefur ekki komið til Tyrklands í meira en sex ár. 

Ítarlega er rætt við Elif Shafak í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert