Óróinn eykst enn

Frá gígnum í morgun. Örlítið hraun sést í honum nú.
Frá gígnum í morgun. Örlítið hraun sést í honum nú. Ljósmynd/Fannar Freyr Gunnarsson

„Óróinn hefur aftur aukist við Geldingadali frá því klukkan fimm í morgun og fer áfram hækkandi,“ segir Böðvar Sveins­son, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Við erum þó ekki farin að sjá neitt hraun ennþá. Það þarf alltaf að bíða aðeins eftir því frá því að óróinn byrjar þangað til nógu mikið er komið til þess að við förum að sjá það,“ segir Böðvar og bætir þó við að enn sé óvíst hvort hraun muni yfirhöfuð koma upp úr gígnum.

Frá gígnum í morgun. Örlítið hraun sést í honum nú.
Frá gígnum í morgun. Örlítið hraun sést í honum nú. Ljósmynd/Fannar Freyr Gunnarsson

Á myndum sem mbl.is fékk sendar sést örlítið hraun í gígnum, þó ekki það mikið að slíkt sé sýnilegt á vefmyndavélum. 

Rúm vika er síðan órói var síðast í gosinu og er það lengsta goshlé frá því að eldgosið hófst í mars. 

Segir þetta goshlé okkur eitthvað um gang gossins?

„Nei, ekki eins og staðan er núna,“ segir Böðvar og bætir við að spáð verði frekar í hvað veldur þessu langa goshléi í næstu viku.

mbl.is