Þrír handteknir á Seltjarnarnesi

Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá unga menn á Seltjarnarnesi um kl. þrjú í nótt. Einn mannanna er grunaður um hótanir, líkamsárás, brot á vopnalögum, vörslu fíkniefna og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. 

Hinir tveir eru grunaðir um vörslu fíkniefna og voru þeir lausir að lokinni skýrslutöku.

Rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi var bifreið stöðvuð skammt frá Laugardalnum. Tveir menn voru í bifreiðinni og hafði áður verið tilkynnt um þá vegna gruns um þjófnað. Mennirnir voru handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Bifreiðin var ótryggð og voru skráningarnúmer fjarlægð

Um klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi við veitingahús í Vesturbæ Reykjavíkur. Maðurinn var sagður í tökum dyravarða en hann mun hafa verið að veitast að fólki og með ógnandi tilburði. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð.  Hann var síðan laus að loknu viðtali.

Þá hafði lögreglan afskipti af þó nokkrum ökumönnum sem reyndust vera undir áhrifum við akstur. 

mbl.is