„Þetta byrjar núna með morgninum“

Ofsaveður í desember 2019.
Ofsaveður í desember 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Von er á afar slæmu veðri á Norðvesturlandi og Vestfjörðum á morgun. Óvissustig almannavarna er í gildi sem og gular- og appelsínugular veðurviðvaranir. 

„Þetta byrjar núna með morgninum, á Norðausturlandi hvessir mjög og síðan færist þetta yfir á norðvestan- og vestanvert landið,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Þetta er slæmt veður, verður verst á Vestfjörðum – mikið hríðaveður þar og stormur eða ofsaveður á þessum slóðum,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn segir að veðrið skáni annað kvöld og verður lægðin orðin mun grynnri á miðvikudagsmorgun. Meðan á stendur er þó viðbúið að ófært verði á vegum víða og að innanlandsflug falli niður. 

Veðurviðvaranir í gildi eins og staðan er núna.
Veðurviðvaranir í gildi eins og staðan er núna. Kort/Veðurstofa Íslands

„Það er talað um norðvestanstórhríð og vindhraða alveg upp í 28 metra á sekúndu á Vestfjörðum og á Breiðafirði. Það verða vandræði með færð á þessu svæði – færð getur spillst og einhverjar rafmagnstruflanir,“ segir Þorsteinn. 

Á suðvesturhorni landsins verður hvasst og viðbúið að gangi á með éljum, en þó ekkert í líkingu við það sem verður á Vestfjörðum og nágrenni að sögn Þorsteins. 

Þorsteinn segir að staðan verði tekin á viðvörunum í fyrramálið og ekki er útilokað að Vestfirðir færist upp í rauða viðvörun.

„Við munum velta fyrir okkur viðvörunum betur í fyrramálið og taka stöðuna á þeim, hvort þær taki einhverjum breytingum.“

mbl.is