„Þetta er dálítið mikill hvellur“

Hætt er við foktjóni og hefur Veðurstofan því beðið fólk …
Hætt er við foktjóni og hefur Veðurstofan því beðið fólk um að tryggja lausamuni.

Hætt er við að foktjón verði á mannvirkjum og truflanir á rafmagni vegna óveðursins á norðvestanverðu landinu. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, segir að veðrið sé óvenjulegt og það geti slegið sér niður eða náð sér upp á öðrum stöðum en fólk á að venjast. 

„Þetta er dálítið mikill hvellur sem gengur yfir landið frá austri til vesturs. Veðrið verður hvað verst á Vestfjarðakjálkanum og á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð eftir hádegi. Það er mikill meðalvindur sem fylgir þessu og það má gera ráð fyrir því að hann nái allt að 28 metrum á sekúndu þegar verst lætur. Þá verður jafnvel enn hvassara til fjalla en það er búið að loka flestum fjallvegum nú þegar,“ segir Einar í samtali við mbl.is. 

Hann segir að eðlilega muni samgöngur raskast og að raforkukerfið sé undir töluverðu álagi, eins og Landsnet hefur þegar gefið út. 

„Það er talsvert viðbragð í samfélaginu.“

„Við höfum stundum séð svona köst koma snemma að haustinu …
„Við höfum stundum séð svona köst koma snemma að haustinu en svo róast veðrið mikið,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Veðrið um margt óvenjulegt

Hann bendir á að vindáttin sé óvenjuleg.

„Hann er norðvestanstæður. Við erum vanari að fást við norðaustan- eða norðanátt þannig að í þessari vindátt getur veðrið slegið sér niður eða náð sér upp á öðrum stöðum en menn eiga að venjast. Maður er svo sem þegar farinn að sjá slíkt,“ segir Einar og tekur sem dæmi að fyrir vestan sé meiri öldugangur inn í firðina en vant er. 

„Það sem er sérstakt og óvenjulegt er það að lægðin fer frá austri til vesturs, það er svo sem ekkert einsdæmi en það er miklu algengara að þær fari hina leiðina, komi úr suðvestri yfir landið. Þetta er vegna þess að háloftavindarnir eru dálítið snúnir.“

Þá segir Einar sömuleiðis óvenjulegt að óveður sem þetta skelli á landinu svo snemma haustsins. 

„Það verður þó að hafa það í huga að það hafa gert svolítið svæsin hríðarveður á þessum árstíma annað veifið undanfarin 10 til 15 ár. Fyrst kemur upp í hugann fjárfellishretið árið 2012 sem varð fyrr að haustinu en þetta er auðvitað með aðeins öðrum brag.“

Vonda veðrið er ekki bara bundið við norðvestanvert landið því það mun einnig ná til Suðvesturlands. Þá eru viðvaranir í gildi víðar, t.d. á miðhálendinu og Austurlandi að Glettingi. 

„Það kemur til með að hvessa og snjóa jafnvel alveg niður undir láglendi á Vesturlandi, í Borgarfirði og á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega efri byggðum. Það verður dálítið hríðarveður yfir Hellisheiðina og Mosfellsheiðina í eftirmiðdaginn.“

Segir ekkert til um það sem koma skal

Spurður hvort ofsaveðrið nú segi eitthvað til um það sem koma skal í vetur segir Einar svo ekki vera. 

„Við höfum stundum séð svona köst koma snemma að haustinu en svo róast veðrið mikið. Núna er að sjá í spánum næstu daga að hann sé að leggjast frekar í norðanáttir og það er spáð eindreginni norðanátt um helgina og haust- ef ekki vetrarlegu veðri. Það er ekkert stórviðri í uppsiglingu þó.“

mbl.is