Segir að Íslendingar eigi að líta stórt á sig

Olivier Poivre d'Arvor, sendiherra Frakklands gagnvart heimskautunum.
Olivier Poivre d'Arvor, sendiherra Frakklands gagnvart heimskautunum. mbl.is/Unnur Karen

Íslendingar eiga ekki að vera feimnir við að slá sér á brjóst og segja að þeir séu mikil sjávarþjóð, sem önnur ríki geta litið til með öfundaraugum. 

Þetta segir Olivier Poivre d'Arvor, sendiherra Frakklands gagnvart Norður- og Suðurskautunum, við mbl.is. 

Hann var hér á landi nýverið til þess að vera viðstaddur Arctic Circle-ráðstefnuna um Norðurslóðir í Hörpu, sem lauk í gær. 

„Þið eruð mikil sjávarþjóð. Þið eruð mjög klár og varkár og þið reynið að forðast ofveiði og eruð meðvituð um hvaða tegundir eru í útrýmingarhættu. Þið kunnið vel að nýta ykkur sjávarauðlindina og farið vel með hana. Við höfum margt af ykkur að læra,“ segir sendiherrann. 

Hann segir einnig að Íslendingar ættu í auknum mæli á líta stórt á sig, sem mikil sjávarþjóð meðal annarra þjóða með ríka sögulega tengingu við hafið. 

Poivre d'Arvor, sem er rithöfundur og mikill menningarfrömuður, segist einnig mikill áhugamaður um íslenska menningu, einmitt af því hún er svo beintengd sjómennsku og hafinu. 

„Verandi frá vesturhluta Frakklands ber ég mikla virðingu fyrir sjómönnum og sjómennsku – afi minn var sjómaður,“ segir hann og bætir við að gaman væri ef Frakkar gætu lært af Íslendingum þegar kemur að sjávarútvegi. 

Ræddi við Ólaf Ragnar um að fá Frakklandsforseta til Íslands

Hann segir einnig að áhugi sé fyrir því að halda Arctic Circle Forum-ráðstefnu í Frakklandi, ráðstefnu sem er eins konar afsprengi stóru Arctic Cricle ráðstefnunnar, sem haldin er í Hörpu ár hvert. 

Vonast hann þannig til þess að það verði hægt að halda hana strax á næsta ári auk þess sem hann segir Emmanuel Macron Frakklandsforseta vera áhugasaman um að ávarpa ráðstefnugesti Arctic Circle í Hörpu á næsta ári. 

Þetta segist hann hafa rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, stjórnarformann Arctic Circle og fyrrverandi forseta Íslands, sem varla hefur litist illa á hugmyndina.

Arctic Circle-ráðstefnunni lauk í gær í Hörpu. Þarna sést Nicola …
Arctic Circle-ráðstefnunni lauk í gær í Hörpu. Þarna sést Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, ræða við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem tekur við spurningum til Sturgeon úr sal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað eru Frakkar að vilja upp á dekk?

Eins og verður ljóst um leið og litið er á landakort er Frakkland ekki Norðurskautsland. Það viðurkennir sendiherrann en segir að þrátt fyrir það sé eðlilegt að Frakkland láti málefni Norðurslóða sig varða. 

Fyrir það fyrsta séu málefni Norðurslóða beintengd umræðunni um loftslagsmál og hnattræna hamfarahlýnun, sem komi við öll ríki heimsins. 

Þar að auki sé mikilvægt að öll ríki heimsins, sem ekki eru nærri Norðurslóðum, séu meðvituð um gang mála á svæðinu og segir hann Frakkland geta verið vettvang fyrir slíkt samtal.

„Hagsmunir okkar eru aðallega tvenns konar,“ segir Poivre d'Arvor og bætir við: „Við erum auðvitað í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem lönd er liggja að svæðinu sitja einnig. Svo er okkar nálgun einnig alþjóðapólitísk. Við viljum að Norðurslóðir séu staður rannsókna, tækifæra og nýsköpunar, en ekki hernaðarbrölts. Ég er ekki svartsýnismaður, ég sé Norðurslóðir ekki sem hættulegasta stað á jörðinni eða eitthvað villta vestur.“

Sendiherrann tók höfðinglega á móti blaðamanni og ljósmyndara mbl.is í …
Sendiherrann tók höfðinglega á móti blaðamanni og ljósmyndara mbl.is í sendiráðsbústað Frakklands við Skálholtsstíg. mbl.is/Unnur Karen

Viðskipti og umhverfisvernd eigi vel saman

Eins og víðar eru aðallega tveir hagsmunir sem togast á þegar rætt er um Norðurslóðir: efnahagslega hagsmuni og umhverfisverndarsjónarmið. Spurður hvort þau sjónarmið séu dæmd til þess að stangast ætíð á, segir sendiherrann að svo sé ekki. 

„Nei,“ segir hann og ítrekar að hann sé ekki svartsýnismaður. 

„Þegar þú talar um stórfyrirtæki eins og til dæmis Total [franskur olíurisi] eða eitthvað svoleiðis þá sérðu þrýstinginn sem þessi fyrirtæki eru beitt. Þessi fyrirtæki geta ekki framkvæmt sína starfsemi í trássi við vilja hinna ýmsu stjórnvalda og umhverfisverndarsamtaka, annars yrði bara mótmælt sem þýddi bakslag fyrir reksturinn. Þess vegna verðum við að hafa vísindamenn á svæðinu, sem starfa í samvinnu við stjórnvöld heimsins, til þess að gefa grænt ljós og leyfi fyrir starfsemi stórfyrirtækja á þessu svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert