Engin smit á meðal 1.400 gesta

Rúmlega 1.400 þátttakendur frá 50 löndum sóttu þingið sem var …
Rúmlega 1.400 þátttakendur frá 50 löndum sóttu þingið sem var þriggja daga langt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að gestir Hringborðs Norðurslóða (e. Arctic Circle), sem haldið var í lok síðustu viku, hafi margir hverjir þurft að fara í tvígang í skimun fyrir kórónuveirunni á meðan þingið stóð yfir greindust engin smit á meðal gesta.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hringborði Norðurslóða. 

Rúmlega 1.400 þátttakendur frá 50 löndum sóttu þingið sem var þriggja daga langt. Þingið var skilgreint sem hraðprófaviðburður af heilbrigðisráðuneytinu og þurftu gestir því að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr skimun fyrir Covid-19 sem var ekki eldri en 48 klukkustunda gömul áður en þeim var hleypt inn á þingsvæðið í Hörpunni. 

„Þingið stóð yfir í þrjá daga og því þurftu þeir sem sóttu alla dagana að fara tvisvar sinnum í hraðpróf. Þegar þátttakendur gátu framvísað neikvæðu prófi fengu þeir armbönd sem gerðu þeim kleift að komast inná þingsvæðið,“ segir í tilkynningunni. 

Þá voru armböndin mismunandi á litinn eftir því hvaða dagur var.

„Því var auðvelt fyrir öryggisgæslu Hörpu að sjá hverjum ætti að hleypa inn á þinghæðirnar, önnur fundarsvæði og inn í lyftur Hörpunnar. Neðri bílakjallari Hörpu reyndist frábær staðsetning til að framkvæma hraðprófin. Bið eftir niðurstöðu var aldrei meiri en 20 mínútur. Þetta reyndist því einföld leið sem gæti gert margvíslegum aðilum kleift að halda viðburði á sem mest hefðbundinn hátt í Hörpu í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni og jafnframt:

„Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle er alþjóðlegur vettvangur þar sem saman koma leiðtogar ríkja, vísindamenn, frumkvöðlar, stjórnendur fyrirtækja, sérfræðingar í umhverfismálum, fulltrúar frumbyggja og fleiri aðilar víðsvegar að úr heiminum. Þingið var fyrsta stóra fjölþátta alþjóðlega samkoman í Evrópu síðan heimsfaraldurinn hófst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert