Kom með einkaþotu til að ræða umhverfismálefni

Friðrik krónprins í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun.
Friðrik krónprins í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Friðrik krónprins Danmerkur og Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur, ásamt danskri sendinefnd, komu til landsins á þriðjudag með einkaþotu í þeim tilgangi að styrkja samstarf og viðskiptatengsl Íslands og Danmerkurs á sviði sjálfbærra orkulausna.

Friðrik yfirgaf landið í gær en sendinefndin og utanríkisráðherrann urðu eftir til að sitja Arctic Circle-ráðstefnuna sem fer nú fram í Hörpu og hefur loftslagsváin verið miðlægt umræðuefni þar. Hélt Kofod meðal annars ávarp á ráðstefnunni í gær.

Sá eini sem kom á einkaþotu

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni, sem sér um móttöku einkaþota á Reykjavíkurflugvelli, voru danski krónprinsinn og fylgdarlið hans þau einu sem lentu á Reykjavíkurflugvelli á einkaþotu í aðdraganda ráðstefnunnar. Yfirgnæfandi meirihluti einkaþota sem koma til Íslands lenda þar. 

„Það kom engin einkaþota fyrir þjóðarleiðtoga fyrir þennan viðburð nema Friðrik og sendinefndin,“ segir hann og bætir við að prinsinn hafi alls ekki verið sá eini í flugvélinni, heldur hafi hún verið þéttsetin.

Segir hann þetta heldur óvanalegt í samanburði við þann fjölda sem kom á einkaþotum fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Reykjavík í maí á þessu ári.

Kynntu sér umhverfisvæna orku

Í Íslandsheimsókninni heimsóttu krónprinsinn og utanríkisráðherrann einnig Hellisheiðarvirkjun þar sem þeir kynntu sér umhverfisvæna orku. Hélt Jeppe Kofod meðal annars málþing í virkjuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert