„Allir verða að vera sammála“

Aðeins ein jörð.
Aðeins ein jörð. AFP

Ísland mun leggja áherslu á að hvetja önnur ríki til að skila inn hertum markmiðum varðandi Parísarsamkomulagið sem og hvetja þau til að lögfesta kolefnishlutleysi á lofts­lags­fund­i Sam­einuðu þjóðanna, COP26, sem hefst á morgun.

Þetta segir Helga Barðadóttir, formaður samninganefndar Íslands gagnvart Loftslagssamningnum og starfsmaður umhverfisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.

Lofts­lags­fund­ur Sam­einuðu þjóðanna, COP26, hefst á morgun.
Lofts­lags­fund­ur Sam­einuðu þjóðanna, COP26, hefst á morgun. AFP

Fáir lögfest markmið um kolefnishlutleysi

„Ísland hefur verið að leggja áherslu á að hvetja önnur ríki til að skila inn hertum markmiðum, eins og við gerðum fyrr á þessu ári. Í vikunni skiluðum við inn okkar stefnu um kolefnishlutleysi en það er ekki skylda að gera það en þó var mælst til að ríkin skiluðu inn slíkri stefnu. Við erum í hópi fárra ríkja sem að hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi fyrir 2040 en flestir eru að horfa til 2050.“

Þá segir Helga að umhverfisráðherra muni leggja áherslu á að tala um stjórnun sjávar og mikilvægi landnotkunar sem aðgerð í loftlagsmálum. 

Bjartsýn á að samkomulag náist

Helga segir mikilvægt að menn nái saman um reglur um markað viðskipta með kolefniseiningar, en málið er umdeilt. 

Helga Barðadótt­ir, sér­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu er stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu …
Helga Barðadótt­ir, sér­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu er stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru allir að leggja áherslu á að herða markmiðin þannig að það er hægt að halda lífi í markmiðinu um að hlýnun jarðar verði ekki meiri en ein og hálf gráða. Það er svona yfirmarkmiðið en vinnan sem fer fram á fundinum snýst um að klára að útfæra reglubók Parísarsamningsins.

Enn standa út af mál sem varða skýrslu- og upplýsingagjöf um loftlagsbókhald og einnig reglur um markað viðskipta með kolefniseiningar, en það er mjög stórt mál og hefur mikið verið í deiglunni. Það er ekkert samkomulag nema allir séu sammála. Það er engin meirihlutaákvörðun, allir verða að vera sammála.“

Helga segist finna fyrir því að fólk vilji að samkomulag náist og er því bjartsýn. „Það tala allir þannig að menn vilji ná árangri þannig að ég vona bara að það verði raunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert