Sér eftir því að hafa gefið ríkinu listasafnið

Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, við Úlfalda, verk eftir listamanninn …
Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, við Úlfalda, verk eftir listamanninn 1978-1979. mbl.is/RAX

Birgitta Spur, ekkja listamannsins Sigurjóns Ólafssonar, sér eftir því að hafa gefið íslenska ríkinu listasafnið með verkum hans.

Í samtali við Fréttablaðið segist hún óánægð með það hvernig ríkið hefur annast reksturinn.

„Ef íslenska ríkið hefur ekki bolmagn til að hlúa sómasamlega að arfleifð Sigurjóns og hugverki mínu er það siðferðileg skylda ríkisins að skila gjöfinni, mínum eigum og heimili,“ segir Birgitta við blaðið.

Eftir lát Sigurjóns stofnaði Birgitta einkasafnið LSÓ 1984 með aðsetur í vinnustofu hans og heimili þeirra hjóna á Laugarnesi. Húsnæðið var endurgert og var safnið opnað almenningi árið 1988 og gert að sjálfseignarstofnun 1989.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hefur verið rekið með styrkjum frá ríki og borg og sjálfsaflatekjum.

Vegna niðurskurðar í kjölfar bankahrunsins 2008 vantaði átta milljónir króna til að brúa bilið á milli tekna og gjalda. Sjálfseignastofnunin var lögð niður og Katrín Jakobsdóttir veitti sem menntamálaráðherra árið 2012 viðtöku skuldlausri eign.

Birgitta hefur óskað eftir því að safnið yrði rekið sem sjálfstæð eining með eigin stjórn og eigið fjármagn, líkt og Listasafn Einars Jónssonar og Gljúfrasteinn. Hún segir embættismenn menntamálaráðuneytisins ekki hafa fallist á þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert