Ísland fjórða besta landið að mati SPI2021

Athyglisvert þykir að fjórar fremstu þjóðirnar eru allar leiddar af …
Athyglisvert þykir að fjórar fremstu þjóðirnar eru allar leiddar af kvenkyns ráðamanni, en hér má sjá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er í fjórða sæti af þeim 168 löndum sem teknar voru út af SPI2021 (Social Progress Index). Í skýrslunni er áhersla lögð á sambandið milli losunar gróðurhúsalofttegunda og félagslegra framfara.

Hún er ekki unnin í hagnaðarskyni og er lögð fram til þess að varpa ljósi á hvað þurfi til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi jarðarinnar fyrir árið 2030.

Um er að ræða gífurlega umfangsmikla gagnaframsetningu þar sem horft er til félagslegra og umhverfislegra þátta á ellefu ára tímabili í 168 löndum, sem hýsa sjö milljarða íbúa jarðarinnar.

Noregur trónir á toppnum en athyglisvert þykir að fjórar fremstu þjóðirnar eru allar leiddar af kvenkyns ráðamanni, eða voru það uns Erna Solberg lét af embætti sem forsætisráðherra Noregs fyrr í haust.

Ljósmynd / Aðsend

Ójafnar og hægar framfarir til þessa

Niðurstöðurnar hafa leitt það í ljós að ef öll lönd heimsins næðu sömu niðurstöðum og Noregur þegar litið er til losunar gróðurhúslofttegunda samhliða félagslegum framförum, gæti heimsbyggðin minnkað losun þeirra um 4,58 tonn á hvern íbúa og þannig náð kolefnishlutleysi.

Þegar litið er til heimsbyggðarinnar í heild hafa átt sér stað framfarir en í skýrslunni segir að þær séu bæði ójafnar og hægar.

Fjórum þjóðum hefur farið aftur, 147 þjóðir hafa bætt sig um eitt stig eða meira , þar af hafa 67 þjóðir bætt sig um fimm stig eða meira. Er það miðað við einkunnagjöf SPI sem, líkt og áður segir tekur mið af bæði félagslegum framförum og árangri í loftslagsaðgerðum.

Helstu framfarirnar hafa orðið í auknu aðgengi að upplýsingum en það hafa aftur á móti orðið talsverðar afturfarir í persónulegum réttindum í 116 af þeim 168 löndum sem úttektin tók til.

Neikvæða fylgnin er að veikjast

Þetta er í fyrsta skipti sem SPI skoðar sérstaklega fylgnina milli sjálfbærni og félagslegra framfara. Fyrir liggur að losun gróðurhúslofttegunda er meiri hjá efnameiri þjóðum þar sem félagslegar framfarir eru meiri.

Þrátt fyrir það leiddu niðurstöðurnar í ljós að neikvæða fylgnin þarna á milli er að veikjast og að einmitt þessar þjóðir séu í góðri stöðu til þess að ná markmiðum um sjálfbærni án þess að það þurfi að koma niður á félagslegum framförum.

Frammistaða Íslands

Gulur punktur merkir að landið standist settar kröfur, blái liturinn …
Gulur punktur merkir að landið standist settar kröfur, blái liturinn er til marks um að frammistaða fari umfram væntingar og sá rauði er til marks um hið gagnstæða. Ljósmynd/ SPI2021

Að ofan má sjá töflu sem sýnir árangur Íslands á þeim sviðum sem úttektin tekur til. Þar er Ísland metið standast kröfur á öllum sviðum en fer fram úr væntingum á sviði heilbrigðis, sem og við aðgengi að upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert