Fer að síga á seinni hlutann hjá nefndinni

Birgir Ármannsson með hendur framúr ermum í Borgarnesi í dag.
Birgir Ármannsson með hendur framúr ermum í Borgarnesi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármansson, þingflokksformaður Sjálfstæðiflokksins og formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar, segir að vettvangsferð nefndarinnar í Borgarnes í dag sé bara venjubundinn hluti starfa nefndarinnar. 

Þetta er þriðja vettvangsferð nefndarinnar í Borgarnes, þar sem verið er að reyna að púsla saman þeirri atburðarás er leiddi til endurtalningar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum í september.

Hann segir þannig aðspurður að ekkert hafi enn fundist í vettvangsferðinni sem veki sérstaka athygli.

„Við erum bara í miðju kafi við að fara yfir flokkun kjörgagna. Við erum hérna hluti nefndarinnar að gera þetta áfram eins og við höfum gert áður,“ segir Birgir við mbl.is. 

„Punkturinn hjá okkur er bara að við störf nefndarinnar þá vakna auðvitað alls konar spurningar og þegar hægt er að leita svara við þeim og tékka af þá bara gerum við það,“ bætir hann við.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er einn nefndarmanna sem fór …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er einn nefndarmanna sem fór í Borgarnes í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fer að síga á seinni hlutann

Þannig það er ekkert sérstakt sem vakti athygli ykkar í dag?

„Ekki núna, nei.“

Birgir segir að óhætt sé að segja að það sé farið að síga á seinni hlutann hjá störfum nefndarinnar. Hann segir þannig niðurstöðu í sjónmáli. 

„Auðvitað eigum við eftir að ræða okkur niður að niðurstöðu. Við erum að ljúka gagnaöflun og síðan erum við að fara í umræður um þessa þætti sem eru kannski matskenndari, sem er mat á málavöxtum og síðan mat á þeim lagalegu atriðum sem við þurfum að hafa í huga.“

mbl.is