Engan veginn ásættanleg meðferð

Hryssan er lokuð inni í litlum viðarkassa og höfuð hennar …
Hryssan er lokuð inni í litlum viðarkassa og höfuð hennar tjóðrað í ónáttúrulegri stöðu við kassann. skjáskot úr heimildarmynd

„Þetta er bara engan veginn ásættanlegt,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, inntur viðbragða við myndbandi frá dýraverndarsamtökunum AWF/TSB, eða Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich, sem sýnir óviðunandi verklag við blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Það er svosem ekki þannig að teljum að svona aðfarir séu heilt yfir stundaðar í þessu starf­inu. Þetta eru von­andi und­an­tekn­ing­ar,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

Dýralæknum skylt að gera athugasemdir

Spurður segir hann einungis dýralækna mega taka blóð úr hryssum og að þeim sé skylt að gera athugasemdir ef þeim þykir meðferð á hryssunum við blóðtöku ekki viðunandi. 

„Þetta snýst náttúrulega bara um dýravelferð og aðfarir í ákveðnu starfi sem er mjög viðkvæmt starf.“

Þá segir hann eftirlit með starfsemi af þessu tagi þurfa vera mikið og gott enda hafi umfang starfseminnar og búgreinarinnar í heild sinni stækkað mikið undanfarin ár.

„Þá þarf eftirlit og eftirfylgni að fylgja því eftir.“

Inntur eftir því segir hann ekki gott að alhæfa um það hvort umrætt myndband sé áfellisdómur á starfsemina í heild sinni. Hann voni þó að þarna sé um einangruð tilfelli að ræða.

Við tök­um kannski inn í umræðuna jafnan lægsta sam­nefn­ar­ann og það sem upp kem­ur og ræðum það en það er ein­fald­lega þannig að sam­kvæmt dýra­vernd­ar­lög­um þá ber fólki að ganga vel um skepn­ur.“

Hefur neikvæð áhrif á orðspor búgreinarinnar

Búgreinin í heild sinni sé þó í miklum blóma og uppákoma af þessu tagi hafi vafalaust slæm áhrif á orðspor hennar.

Hross­a­rækt­ar­starfið og sala á hest­um bæði inn­an­lands og er­lend­is er í sögu­legu há­marki núna. Það er sögu­lega gott ár að líða hvað varðar út­flutn­ing þannig okk­ur finnst okk­ur ganga vel í grein­inni,“ segir Sveinn.

Við vilj­um auðvitað ekki að þetta sé mynd sem er dreg­in upp þegar fólk hugs­ar um ís­lenska hest­inn. Ég bara ætla þeim sem að þessu standa, þ.e. MAST, Ísteka og þeim bænd­um sem eru í þess­ari starf­semi, að fara ræki­lega yfir alla sína þætti.

Félag hrossabænda fordæmir vinnubrögðin

Félag hrossabænda sendi frá sér í yfirlýsingu í dag þar sem forsvarsmenn félagsins segjast harma og fordæma vinnubrögðin sem viðhöfð voru og sjást á mynd­bandinu umrædda.

Þar segir einnig að for­svars­menn fé­lags­ins hafi ávallt bent á að vel­ferð hryssna og fol­alda í blóðhryssna­bú­skap þurfi að vera í fyr­ir­rúmi og því hafi verið áfall að verða vitni að þeirri meðferð sem sést í myndbandinu. Hvorki aðbúnaður, um­gjörð og hvað þá held­ur sú illa meðferð sem hryss­urn­ar eru beitt­ar séu ekki á nokk­urn hátt rétt­læt­an­leg­ar.

„Það er ský­laus krafa Fé­lags hrossa­bænda að rann­sakað verði það sem fram kem­ur í mynd­band­inu og upp­lýst af hálfu MAST hvernig eft­ir­liti með þess­ari starf­semi sé og hafi verið háttað og hver beri ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert