Orkuskipti og umhverfisvernd óaðskiljanleg málefni

Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr ráðherra umhverfis- orku-, og loftslagsmála.
Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr ráðherra umhverfis- orku-, og loftslagsmála. Árni Sæberg

Margt mælir með því að orkumál og umhverfismál heyri undir sama ráðherra, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, nýs umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Tryggvi Felix­son, formaður Land­vernd­ar, vakti athygli á því, í samtali við mbl.is, að það væri mikil kúnst að annast uppbyggingu orku annarsvegar og verndun náttúru hinsvegar.

„Þetta er nú bara verk íslenskra stjórnvalda almennt,“ segir Guðlaugur Þór og bætir við að það sem einkenni Ísland sé að það hafi náð lengra en aðrar þjóðir þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum.

„Þar viljum við vera. Við erum með háleit markmið, en á sama tíma erum við náttúruverndarsinnar og viljum halda jafnvægi í þessu eins og Tryggvi vísar til.“

Burt séð frá því hvort þessi málefni séu í sitthvoru ráðuneytinu eða því sama, komi alltaf til þess að ræða þurfi málefni umhverfisverndar og orkuskipta í samhengi hvort við annað og finna jafnvægi sem menn geta verið sáttir við.

Sérstakt að flytja inn græna orku

„Ef við ætlum að fara í þau orkuskipti, sem ég vona að sé góð sátt um, þá annaðhvort verðum við að framleiða þá orku sjálf eða flytja hana inn og ég held að fólki myndi finnast það svolítið sérstakt að flytja inn græna orku á Íslandi.“

Á sama tíma segir Guðlaugur fleiri markmið skipta máli en að hafa hér endurnýjanlega orku, eitt þeirra sé að halda í víðerni landsins og náttúruperlur.

Margir vilji koma að miðhálendisþjóðgarðinum

Í nýjum stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að miðhálendisþjóðgarðurinn verði tekinn til meðferðar í breyttri mynd. Inntur eftir nánari skýringum á þessu segir Guðlaugur Þór:

„Það var ekki góð sátt um þessar fyrirætlanir. Það er engin tímapressa á einu eða neinu heldur snýst þetta um að setjast yfir málið. Það eru margir sem vilja að því koma, sem er gott. Sem betur fer hefur fólk áhuga á hálendinu og víðernum landsins. “

Naut sín sem utanríkisráðherra

Um leið og Guðlaugur Þór tekur við hinu nýja embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kveður hann utanríkisráðuneytið.

Spurður hvort hann sjái á eftir utanríkisráðuneytinu segist hann hafa notið þess að starfa sem utanríkisráðherra.

„Ég fer þaðan ánægður með þann árangur sem náðist, lítið af vonbrigðum og ég kynntist góðu fólki.“

Hann áréttar að verkefni í stjórnmálum séu alltaf tímabundin. 

„Þó ég hafi notið mín þar þá hlakka ég engu að síður til komandi verkefna.“ Hann kveðst ánægður með að hafa fengið verkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra enda sé það bæði vandasamt og krefjandi verk.

mbl.is