Ákvarðanir teknar í samráði við foreldrana

Varmárskóli í Mosfellsbæ.
Varmárskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/Eyþór Árnason

Mosfellsbær hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar mbl.is fyrr í dag um málefni stúlku sem stundaði nám við Varmárskóla og hefur nú höfðað mál á hendur Mosfellsbæ.

Í yfirlýsingunni segir að mbl.is hafi ekki leitað eftir upplýsingum frá Mosfellsbæ við vinnslu fréttarinnar, og er fréttin því að sögn Mosfellsbæjar „einhliða frásögn og því miður er þar að finna hreinar rangfærslur,“ að því er segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að fyrir liggi að þeim lýsingum sem fram hafa komið af hálfu forráðamanna stúlkunnar og lögmanns þeirra hafi verið mótmælt í öllum meginatriðum af hálfu Mosfellsbæjar. „Um er að ræða málefni einstaklings og því eru takmarkanir á hvað Mosfellsbær getur tjáð sig um opinberlega en þar sem málsaðilar hafa ítrekað komið fram í fjölmiðlum og farið með rangt mál um atvik á Mosfellsbær ekki annarra kosta völ en að leiðrétta alvarlegustu rangfærslurnar.“

Foreldrunum boðið að nýta sérhæft námsver

Vill bærinn koma því á framfæri að ákvarðanir er vörðuðu kennslu stúlkunnar, þar á meðal um hvaða kennslurými var notað, hafi verið teknar í samráði við foreldra. Segir í yfirlýsingunni að foreldrum stúlkunnar hafi verið boðið að nýta sérhæft námsver í skólanum en að því hafi verið hafnað af hálfu forráðamanna. 

„Kennslurýmið sem var notað tímabundið var valið af foreldrum eftir að þeim höfðu verið sýndir nokkrir möguleikar í skólanum. Þá er mikilvægt að fram komi að skólastjóri lýsti þeirri skoðun sinni að sú aðstaða sem foreldrarnir völdu væri ekki við hæfi en þrátt fyrir það kusu forráðamenn að nýta þá aðstöðu en ekki þá aðstöðu sem fagfólk skólans lagði til,“ segir í tilkynningu Mosfellsbæjar. 

„Fram hefur komið að stúlkan glímdi við veikindi og hafði því ekki tök á að stunda nám að fullu. Af hálfu forráðamanna stúlkunnar var lögð rík áhersla á að hún hitti ekki önnur börn og ekki var til staðar vilji til að stúlkan tæki þátt í hefðbundnu skólastarfi. Þá er rétt að fram komi að hún naut sjúkrakennslu á heimili sínu og á heilbrigðisstofnun,“ segir í tilkynningunni. 

Reyndu eftir fremsta megni að koma til móts að aðstæður

Þá segir í tilkynningunni að Mosfellsbær hafi reynt eftir „fremsta megni að koma til móts við þær aðstæður sem voru uppi og var það meðal annars gert í samvinnu við aðra fagaðila sem komið höfðu að máli stúlkunnar.“

Segir í lokaorðum yfirlýsingarinnar að í ljósi ofangreinds, sé fyrirsögn greinarinnar sérstaklega ámælisverð. Þá verði ekki annað ráðið af frétt mbl.is en að blaðamaður hafi haft undir höndum greinargerð Mosfellsbæjar í málinu, sem lögð var fram í  héraðsdómi. „Því vekur það furðu að við vinnslu fréttarinnar hafi hvorki verið leitað eftir sjónarmiðum Mosfellsbæjar né reynt með nokkrum hætti að horfa til málsins á heilstæðan máta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert