Gagnrýnin ekki með hag barnanna að leiðarljósi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur þá sem gagnrýnt hafa fyrirkomulag bólusetninga barna, sem eiga að fara fram í grunnskólum, ekki endilega vera með hag barnanna að leiðarljósi. Hann bendir jafnframt á að ef draga á í efa réttmæti þess að bólusetja með bóluefni gegn Covid-19 í grunnskólum þurfi í raun að endurskoða allar þær bólusetningar sem fara þar fram.

„Menn eru að tala um eins og bólusetningar í skólum séu eitthvað nýtt fyrirbæri. Það er búið að bólusetja í skólum í áratugi, margskonar bólusetningar og það er mikil reynsla komin á það.

Það er enginn með jafn góða reynslu í að bólusetja heldur en heilsugæslan – og sjá hvað virkar vel og hvað virkar illa fyrir börnin. Þannig þessi umræða núna um það hvort það megi bólusetja í skólum eða ekki finnst mér öfugsnúin,“ segir Þórólfur og spyr í framhaldinu hvort að stöðva eigi framkvæmd allra bólusetninga sem þar fara fram.

Mikilvægt að bólusetningarstaða verði ekki á allra vitorði

Stefnt er að því að hefja bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára í næstu viku. Heilbrigðisyfirvöld tilkynntu á dögunum drög að framkvæmd þeirra. Kom þar meðal annars fram að fyrirhugaðar áætlanir um að bólusetja börnin á höfuðborgarsvæðinu í grunnskólum myndu standa. 

Ekki hafa allir verið sáttir við þá ákvörðun en í síðasta mánuði barst almannavörnum opið bréf þar sem varað var við þessari framkvæmd, meðal annars í ljósi þess að það yrði á allra vitorði hvaða börn myndu þiggja bólusetningu og hver ekki. Gæti þetta leitt af sér félagsleg vandamál á borð við útskúfun og einelti.

Þá hefur umboðsmaður barna meðal annars lagt til að ákvörðun heilbrigðisyfirvalda verði endurskoðuð enda sé mikilvægt að viðkvæmar persónuupplýsingar um börn séu virtar.

Telur gagnrýnina mögulega fyrirslátt

Aðspurður segir Þórólfur fyrirkomulagið sem búið er að skipuleggja algjörlega geta komið í veg fyrir að það spyrjist út hvaða börn verða bólusett og hver ekki. Hann ítrekar einnig að enginn verði neyddur til þess að mæta enda séu bólusetningar valkvæðar.

„Ég get ekki séð að það sé annað húsnæði fyrir utan skólana. Fyrir utan að það verður reynt að gefa frídaga í skólanum þá daga sem er bólusett. Það yrðu þá bara nokkrir dagar. Það er ekki eins og skólaganga barna muni bíða hnekki af því. Það þarf enginn að vita hver er bólusettur og hver er ekki bólusettur.“

Telur hann jafnframt þá gagnrýni sem hefur verið uppi varðandi þetta fyrirkomulag ekki endilega byggja á þeim forsendum sem haldið hefur verið fram.

„Mér finnst þetta að mörgu leyti vera fyrirsláttur. Ég held að menn séu með annað í huga heldur en bólusetningarnar sjálfar og hag barnanna. Ég held að þeir sem séu á móti bólusetningum séu að reyna að þyrla rykinu upp á þennan máta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert