Laugardalshöll hafi ákveðna kosti framyfir skólana

Salvör segir mikilvægt að skapa barnvæna aðstöðu í Laugardalshöll.
Salvör segir mikilvægt að skapa barnvæna aðstöðu í Laugardalshöll. mbl.is/Hari

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, telur að Laugardalshöllin hafi ákveðna kosti fram yfir skólana þegar kemur að bólusetningu barna á aldrinum 5 til 11 ára. Heilsugæslan sé þó alltaf besti kosturinn fyrir þennan aldurshóp.

mbl.is greindi frá því fyrr í dag að ákveðið hefði verið að bólusetning barna á þessum aldri á höfuðborgarsvæðinu fari fram í Laugardalshöllinni í næstu viku. Áður hafði staðið til að bólusetja í skólum. Er þessi breyting tilkomin vegna manneklu en margir starfsmenn heilsugæslunnar eru frá vegna smita.

Skiptar skoðanir voru á þeirri hugmynd að bólusetja í skólum og hafði Salvör áður lýst yfir ákveðnum áhyggjum með það fyrirkomulag. Það hafði Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, einnig gert.

„Við teljum auðvitað að heilsugæslan sé besti kosturinn fyrir bólusetningarnar fyrir þennan aldurshóp, en Laugardalshöllin kann að hafa ákveðna kosti fram yfir skólana. Ef þau nýta plássið vel í Laugardalshöll, gera það hlýlegt fyrir börnin og barnvænt og boða börn úr sömu skólum á mismunandi tímum. Gera það þannig að félagarnir séu ekki saman og þá er starfsfólk skólanna heldur ekki meðvitað um hver þiggur bólusetningu,“ segir Salvör í samtali við mbl.is.

Ekki sambærilegt við aðrar bólusetningar

Hún leggur áherslu á að mikilvægt sé að skapa barnvæna aðstöðu og tryggja að börn á leið í bólusetningu standi ekki í röð.

„Þetta eru auðvitað svolítið sérstakar aðstæður. Þetta eru ekki eins og aðrar bólusetningar sem fara fram. Það hefur verið komið fram með það sjónarmið að bólusetningar fari oft fram í skólum. Við erum búin að vera í þessu Covid-ástandi í tvö ár og það hefur ekki verið talað um neitt annað í samfélaginu. Þó það sé verið að bólusetja börnin þá hafa þau verið að veikjast minna. Þetta hefur verið hluti af heildarbólusetningu alls samfélagsins, þetta er því ekki alveg sambærilegt.“

Augljóslega reynt að bólusetja eins hratt og hægt er

Salvör segir augljóst að tekin sé ákvörðun um að nýta þessa staði, fyrst skólana og nú Laugardalshöllina, til að ná fram ákveðinni hagkvæmi, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is í gær að ákvörðun um að bólusetja börn í skólum hefði verið tekin að vel ígrunduðu máli og væri talin sú besta í stöðunni. Hagkvæmnissjónarmið hafi ekki ráðið för.

„Það virðist sem þau velji að gera þetta þannig að það sé hægt að gera þetta eins hratt og hægt er. Í því felst ákveðinni hagkvæmni. Hagkvæmnisrök skipta því enn máli,“ segir Salvör.

Hún segir mikilvægt að gefa kost á bólusetningu á heilsugæslu fyrir þá sem vilja og þurfa lengri tíma til að velta fyrir sér hvort þeir vilji láta bólusetja börnin sín. „Vonandi verður það tryggt líka að ef fólk er ekki tilbúið að taka ákvörðun, þá geti það fengið bólusetningu síðar.“

Mikilvægt að eiga samtal við börnin

Spurð hvort börn á þessum aldri eigi sjálf að hafa eitthvað um það að segja hvort þau eru bólusett eða ekki, segir Salvör: „Það er auðvitað foreldranna að ákveða það fyrir yngstu börnin en við höfum lagt áherslu á að foreldrar ræði þetta við börnin sín og það eigi sér gott samtal.“

Þá hefur skrifstofa umboðsmanns barna tekið þátt í því með sóttvarnaryfirvöldum að útbúa texta fyrir börn sem þau geta lesið sjálf á auðskildu máli. „Það er auðvitað nauðsynlegt að þau séu meðvituð og við þekkjum það og sjáum og heyrum að börn hafa velt þessu Covid mikið fyrir sér allan tímann. Þetta hefur haft svo margvísleg áhrif þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert