Ísland, Grænland og Færeyjar geti verið fremst

Guðlaugur Þór á fundinum í gær.
Guðlaugur Þór á fundinum í gær. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftsagsráðherra telur ástæðu til að styrkja samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja í loftslagsmálum og hreinum orkuskiptum.

Þetta kom fram í máli hans á málþingi Vestnorræna ráðsins um loftslagsmál í gær.

Guðlaugur Þór sagði ríkin búa um margt við svipaðar aðstæður og að þau geti lært margt af hverju öðru, á sviði vísinda, loftslagsaðgerða og viðskipta.

Í tilkynningu frá ráðuneyti Guðlaugs kemur fram að hann hafi bent á að löndin þrjú búi um margt við svipaða ógn hvað loftslagsbreytingar varðar, en að efnahagur og samfélag allra ríkjanna byggi á gæðum hafsins og því þurfi að bregðast við súrnun hafsins, breytingu á hafís og straumum og öðru sem hafi áhrif á lífríki sjávar.

„Þá búi löndin yfir gnægð af endurnýjanlegri orku, s.s. á sviði vinds, vatnsorku og sjávarstrauma, auk jarðhita á Íslandi. Þetta gefi vestnorrænu ríkjunum færi á að vera í fararbroddi varðandi hrein orkuskipti. Hann nefndi að Ísland hafi nýlega ákveðið að banna olíuleit í íslenskri lögsögu, en áður hafi Grænlendingar tekið slíkt skref.“

Ráðstefna Vestnorræna ráðsins um loftslagsmál og græn umskipti var haldin í netheimum í gær, en auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í henni Kalistat Lund og Magnus Rasmussen, ráðherrar umhverfismála í Grænlandi og Færeyjum, auk vísindamanna, sérfræðinga og annarra fulltrúa frá löndunum þremur. 

mbl.is