Fær ekki að áfrýja þungum nauðgunardómi

Hæstiréttur telur ekki ástæðu til að taka málið fyrir.
Hæstiréttur telur ekki ástæðu til að taka málið fyrir. mbl.is/Odd

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni karlmanns, sem dæmdur var í sjö ára fangelsi fyrir gróf brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, um að taka fyrir mál hans fyrir réttinum. Maðurinn fór í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar ekki fram á að sekt hans yrði tekin til endurskoðunar, heldur taldi hann refsinguna vera of þunga og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.

Hæstiréttur tók þó ekki undir þetta og segir í ákvörðun hans að ekki verði séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn réttarins í málinu.

Sérstaklega ófyrirleitin

Landsréttur dæmdi manninn í sjö ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa nauðgað þáver­andi sam­býl­is­konu sinni, meinað henni út­göngu af heim­ili henn­ar, hótað henni líf­láti og beitt hana ým­is­kon­ar grófu of­beldi, svo sem að pota í augu henn­ar, þrengt að önd­un­ar­vegi kon­unn­ar, skallað hana, sparkað í hana og kastað þvagi yfir hana.

Þá er hann einnig fund­inn sek­ur um að hafa ít­rekað brotið nálg­un­ar­bann sem hann sætti vegna ógn­andi hegðunar og áreit­is í garð kon­unn­ar. Maður­inn braust einnig inn til kon­unn­ar.

Áður hafði maður­inn fengið sex ára dóm í héraðsdómi, en Lands­rétt­ur taldi rétt að þyngja dóm­inn í sjö ár og að hon­um yrði gert að greiða kon­unni fjór­ar millj­ón­ir í miska­bæt­ur, eða tvö­falda þá upp­hæð sem héraðsdóm­ur hafði dæmt kon­unni.

Sagði í dómi Landsréttar að brot mannsins hefðu verið „sér­stak­lega ófyr­ir­leit­in og at­lög­ur ákærða lang­vinn­ar“. Þá er hann ekki sagður eiga sér nein­ar máls­bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert