Húsagötur jafnvel ekki færar fyrr en á miðvikudag

Snjómokstursmenn reyna hvað þeir geta við að halda vegum opnum …
Snjómokstursmenn reyna hvað þeir geta við að halda vegum opnum í borginni. mbl.is/Sigurður Bogi

Snjómokstursmenn á vegum Reykjavíkurborgar hafa ekki undan við að reyna að halda götum borgarinnar opnum nú þegar snjónum kyngir niður. Talið er líklegt að einhverjar húsagötur verði ekki færar fyrr en á morgun eða miðvikudag.

Þetta segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að starfsfólk á hans vegum hafi farið af stað í mokstur klukkan þrjú í nótt og hingað til hafi tekist að halda stofn- og tengibrautum opnum í borginni en öll tæki og mannskapur er úti.

„Það er hins vegar þungfært í úthverfum eins og Grafarholti og Grafarvogi en þar er rosaleg ófærð,“ segir Hjalti.

Snjókoman léttir vissulega ekki verkið við að reyna að halda götum opnum að sögn Hjalta. „Við mokum og svo hálftíma síðar er ástandið eins og það var fyrir mokstur; það snjóar það mikið.“

Af þeim sökum telur Hjalti allt eins líklegt að einhverjar húsagötur verði ófærar jafnvel fram á miðvikudag og biður fólk að sýna því skilning. 

„Veðurspáin er þannig að snjókoman minnkar eitthvað eftir hádegi en þá fer að blása og snjórinn fer á hreyfingu. Um miðjan dag gætum við verið staddir á sama stað og klukkan þrjú í nótt.“

Reynt er að halda strætóleiðum opnum.
Reynt er að halda strætóleiðum opnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Hjalti biðlar til fólks á vanbúnum bílum að fara ekki út og einnig að sýna snjómokstursmönnum þolinmæði við þessar erfiðu aðstæður.

„Þetta er alvöruvetur í fyrsta skipti í tvö-þrjú ár. Við erum með öll tæki og mannskap úti. Við reynum að vinna þetta eins vel og hratt og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert