„Við misstum náttúrulega allt“

Sverri Atla Jónssyni frá Ísafirði og Ute Hilbradt eiginkonu hans …
Sverri Atla Jónssyni frá Ísafirði og Ute Hilbradt eiginkonu hans vannst ekki ráðrúm til að bjarga neinu úr leiguíbúð sinni við Bargmannstrasse í Essen í stórbruna sem gjöreyðilagði tæplega 40 íbúðir í húsinu aðfaranótt mánudags. „Við hjónin byrjum bara á Lífinu 2.0,“ segir Sverrir af fullkomnu æðruleysi í samtali við mbl.is. Ljósmynd/Sverrir Jónsson

„Hjá okkur byrjaði gamanið þegar ég vaknaði við að bankað var harkalega á hurðina,“ segir Sverrir Atli Jónsson í samtali við mbl.is, rúmlega sextugur Ísfirðingur í Essen í þýska sambandsríkinu Norðurrín-Vestfalíu, þar sem stórbruni gjöreyðilagði tæplega 40 íbúðir í fimm hæða fjölbýlishúsi aðfaranótt mánudags og þykir mesta mildi að um 100 íbúar komust lifandi út úr húsinu, en slökkvilið borgarinnar kveðst í viðtali við Radio Essen aldrei hafa komist í tæri við eldsvoða af þessari stærðargráðu sem krafðist vinnu 150 slökkviliðsmanna á vettvangi.

Alls börðust 150 slökkviliðsmenn við eldinn í húsinu aðfaranótt mánudags …
Alls börðust 150 slökkviliðsmenn við eldinn í húsinu aðfaranótt mánudags sem er stærsti eldsvoði í minnum slökkviliðs Essen eftir því sem það greindi frá í viðtali við Radio Essen. Ljósmynd/Óskar Freyr Alfreðsson

„Ég fór fram og opnaði,“ heldur Sverrir áfram frásögninni, en eldsins varð vart um tvöleytið að staðartíma aðfaranótt mánudags og breiddist um bygginguna, Bargmannstrasse 25 – 33, með ógnarhraða, knúinn vindum illviðrisins Antoniu sem geisaði í vesturhluta Þýskalands þessa nótt. Fyrir utan leiguíbúð þeirra Ute Hilbradt, eiginkonu Sverris, hafi þá staðið lögregluþjónn sem bað þau að klæðast í skyndi og yfirgefa íbúðina því það gæti kviknað í hjá þeim.

Byrjum bara á Lífinu 2.0

„Við fórum út og löbbuðum um húsið og eftir sjö til tíu mínútur sé ég að bakhliðin á allri blokkinni er orðin alelda,“ heldur Sverrir áfram. „Svo virðist sem ástæðan fyrir því að eldurinn breiddi svona hratt úr sér sé plexigler-klæðning á öllum svalahandriðunum auk þess sem húsið er bogið, svona eins og boomerang [kastvopnið bjúgverpill], þannig að hvirfilvindur hefur myndast sem breiddi eldinn út, fyrst lárétt eftir húsinu og svo lóðrétt upp vegginn,“ segir Sverrir, en þau hjónin höfðu ekki svigrúm til að bjarga öðru en sjálfum sér út úr brennandi fjölbýlishúsinu og misstu þar allt sitt, nema bílinn sem stóð í kjallaranum og slapp við logana.

Mesta mildi þykir að 100 manns sluppu lifandi út úr …
Mesta mildi þykir að 100 manns sluppu lifandi út úr brennandi húsinu, þrír fengu þó reykeitrun sem líklega má telja vel sloppið miðað við umfang brunans. Ljósmynd/Óskar Freyr Alfreðsson

„Við misstum náttúrulega allt, en þá fara gömlu góðu íslensku og vestfirsku genin í gang: Þetta reddast. Svo við hjónin byrjum bara á Lífinu 2.0,“ segir Vestfirðingurinn gallharður og dregur líkinguna úr hugbúnaðarheiminum, en hann starfar sem „enterprise IT architect“ í höfuðstöðvum þýska iðnaðarrisans ThyssenKrupp AG og hefur gert undanfarin sjö ár. „Ég vann áður mikið fyrir dagblöð, byrjaði reyndar að vinna fyrir Moggann og DV, vann við gömlu Norsk Data-kerfin, og var á fleiri blöðum hingað og þangað, Aftenposten í Ósló og WAZ hér í Essen,“ segir Sverrir.

„Ordnung muss sein“

Hann kveður ekkert vanta upp á hjálpsemi hinna þýsku og ber þeim vel söguna, þau hjónin fái til dæmis íbúð með öllu lánaða hjá ThyssenKrupp í þrjá mánuði, „þannig að við getum ekki kvartað eftir allt saman. Svo bíðum við bara eftir að leigusalinn, það er fyrirtæki sem heitir Vivawest, bjóði okkur aðra sambærilega íbúð. En þetta tekur allt sinn tíma. Þjóðverjar eru nú ekki þekktir fyrir að hjólin snúist hratt. „Ordnung muss sein“ [regla skal höfð] segja þeir hér og því sem oft er haldið fram um skriffinnsku Þjóðverja er alveg satt,“ segir Sverrir glettinn.

Tjónið er gríðarlegt eins og glöggt má sjá af þessari …
Tjónið er gríðarlegt eins og glöggt má sjá af þessari mynd sem Sverrir tók í dagsbirtu á mánudaginn. Ljósmynd/Sverrir Jónsson

Ég var búinn að búa í þessu húsi í fjögur og hálft ár og eins og ég sagði er búið að bjóða okkur mikla aðstoð og við erum vel tryggð þannig að þetta mun allt saman ganga upp,“ segir Ísfirðingurinn, æðruleysið uppmálað þrátt fyrir atburðarásina aðfaranótt mánudags. „Ég kalla Bargmannstrasse nú Íslendingahverfið í Essen því tveir þriðju allra Íslendinga sem búa í Essen í dag búa þar, en það eru Óskar Alfreðsson og ég,“ segir Sverrir að lokum.

Sögunni víkur til Óskars

„Við urðum vör við bjölluna um hálfþrjú þarna um nóttina,“ segir téður Óskar Freyr Alfreðsson þegar mbl.is nær tali af honum. Óskar býr í næsta húsi við, númer 38, ásamt eiginkonu sinni Kristinu Alfredsson og sjö ára syni þeirra. „Nágranni okkar var þá að vekja alla í stigaganginum og lætur okkur vita af eldinum í húsinu á móti. Við byrjuðum á að hringja í alla sem við þekktum í húsinu sem kviknað var í, við þekkjum þrjár fjölskyldur í Bargmannstrasse 27,“ segir Óskar frá.

„Leikr hár hiti við himin sjálfan“ segir í Völuspá og …
„Leikr hár hiti við himin sjálfan“ segir í Völuspá og er engum ofsögum sagt að hafa þá lýsingu um brunann í Essen aðfaranótt mánudags. Ljósmynd/Sverrir Jónsson

Hafi þeim Kristinu létt mjög þegar þau heyrðu að allt kunningjafólkið var óhult. „Við fengum neistaflugið yfir okkar hús í storminum sem gekk yfir Þýskaland aðfaranótt mánudags, Antoniu, og leist ekkert á blikuna, fórum að pakka mikilvægum skjölum og pappírum í bakpoka og fljótlega var svo bankað hjá okkur og við beðin að rýma húsið,“ segir Óskar sem starfar hjá strætisvagnafyrirtækinu Vehar Linienverkehr GmbH, skipuleggur þar vaktir og fer með eftirlit með vagnaflota fyrirtækisins, en Kristina starfar hjá National Bank í Essen.

Íkveikja ekki útilokuð

Alls þurftu 180 manns að yfirgefa heimili sín á meðan slökkviliðið barðist við eldhafið í heilu fimm hæða fjölbýlishúsi, 100 íbúar sjálfs hússins sem brann og 80 nágrannar, og var ekki laust við nokkurt öngþveiti í byrjun, enda niðdimm nótt.

Óskar og Kristina ásamt syni sínum ungum. Þeim varð ekki …
Óskar og Kristina ásamt syni sínum ungum. Þeim varð ekki um sel þegar brunabjöllur og bank á hurðir vakti þau af værum svefni á þriðja tímanum aðfaranótt mánudags og næsta hús stóð í ljósum logum. Ljósmynd/Aðsend

„Við fréttum af vinum okkar í WAZ-húsinu [dagblaðsins Westdeutsche Allgemeine Zeitung] við endann á götunni svo þangað fórum við líka. Seinna sendi lögreglan alla á sal Háskólans í Essen sem er í um 800 metra fjarlægð. Þar vorum við til 10:30 en þá fengum við leyfi til að fara aftur í húsið okkar. Inni var smá reykjarlykt en annað var það ekki,“ segir Óskar og bætir því við að kunningjafólkið í húsinu sem brann hafi misst allt sitt, Sverrir og frú, ung kennarahjón með sex ára dóttur og að lokum ungt par sem flutt hefði inn aðeins fjórum mánuðum áður.

Mynd sem Óskar smellti af út um gluggann hjá sér …
Mynd sem Óskar smellti af út um gluggann hjá sér nóttina örlagaríku. „„Ég vona sannarlega að maður þurfi ekki að upplifa svona nokkuð aftur,“ segir hann við mbl.is. Ljósmynd/Óskar Freyr Alfreðsson

„Ég vona sannarlega að maður þurfi ekki að upplifa svona nokkuð aftur, það er ótrúlegt að enginn týndi lífinu, þrír fengu reykeitrun, það var allt og sumt, en slökkviliðið útilokar ekki að kveikt hafi verið í húsinu,“ segir Óskar Freyr að lokum af stærsta bruna í minnum slökkviliðsins í Essen sem snart með beinum og óbeinum hætti líf tveggja Íslendinga þar í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert