Ísland haft milligöngu um 13 flugferðir með hergögn

Innrás Rússa mótmælt á Skólavörðustíg.
Innrás Rússa mótmælt á Skólavörðustíg. mbl.is/Óttar

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum vikum haft milligöngu um flutning á hergögnum frá ýmsum Evrópuríkjum til Úkraínu. Þrettán fraktflugferðir hafa verið farnar í þessum tilgangi.

Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. Segir í svarinu að þetta hafi verið gert til að svara ákalli úkraínskra stjórnvalda um slíka aðstoð.

Til þessara verkefna hafa íslensk stjórnvöld leigt fraktflugfélagar frá flugfélögunum Air Atlanta og Bluebird Nordic og hafa, eins og áður segir, alls þrettán slíkar fraktflugferðir verið farnar í samstarfi við Albaníu, Slóveníu, Ítalíu, Króatíu og Portúgal til áfangastaða nærri landamærum Úkraínu.

Flutningarnir í samræmi við íslensk lög 

Sérstaklega er tekið fram í svarinu að flutningarnir séu í fyllsta samræmi við íslensk lög og reglur.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sagði í ræðu sinni á Alþingi þann 2. mars síðastliðinn að Ísland gæti eðli máls samkvæmt ekki veitt Úkraínu hergögn í té þar sem við værum herlaust ríki.

„En við höf­um svarað kalli úkraínsku þjóðar­inn­ar um liðsinni við birgðaflutn­inga með því að leggja til af­not af frakt­flug­vél,“ bætti hún við.

mbl.is