Ekki órofa samstaða innan ASÍ

Drífa hefur áður fordæmt uppsagnirnar.
Drífa hefur áður fordæmt uppsagnirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er samstaða innan miðstjórnar ASÍ með að fordæma hópuppsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á öllu starfsfólki félagsins.

Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is að loknum fundi miðstjórnar þar sem málið var tekið fyrir.

Drífa segir að hugsanlega hafi meirihluti fundarmanna viljað fordæma uppsagnirnar, en samstaðan hafi ekki verið órofa.

„Það var ekki órofa samstaða um að fordæma hópuppsögnina. Ég hefði lagt til drög að ályktun um að fordæma þetta hefði ég skynjað að það væri órofa samstaða um málið. Það var því miður ekki og því lagði ég það ekki til.“

Drífa hefur sjálf áður fordæmt uppsagnirnar.

Eðlilegt að boða til fundar

Í gærkvöldi var greint frá því að hátt í 500 félagsmenn Eflingar hefðu skilað inn undirskriftum til stjórnar félagsins til að knýja fram félagsfund.

Stjórnin á eftir að boða fundinn en ljóst er að af honum verður þar sem að félaginu er skylt að boða til fundar ef minnst 300 félagsmenn krefjast þess. 

„Mér finnst gott að það sé boðað til félagsfundar í félagi þar sem það eru svona mikil átök. Við höfum alltaf hvatt til þess að svona hlutir séu unnir á hinum félagslega vettvangi aðildarfélaga. Þannig að mér finnst það eðlilegt framhald að það sé boðað til félagsfundar hjá Eflingu,“ segir Drífa.

mbl.is