Hafa ekki stimplað sig út úr samfélaginu

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, …
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Samsett mynd

Fólk sem glímir við langtímaveikindi hefur ekki fyrirgert rétti sínum til að taka þátt í félagsstarfi eða mæta á félagsfundi hafi það orku til.

Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við mbl.is, innt eftir viðbrögðum við ummælum sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét falla á fundi félagsins í gærkvöldi.

Á umræddum fundi sagði Sólveig það skjóta skökku við að það starfsfólk félagsins, sem skilað hafði inn langtímaveikindavottorði, hafi séð sér fært að mæta á fundinn. Hún tjáði sig svo enn frekar um málið á Facebook í dag.

Þuríður segir langtímaveikindi sem betur fer ekki alltaf vera þannig að fólk þurfi að vera rúmliggjandi í marga mánuði til þess að ná bata.

„Það er mjög margvíslegt hvernig veikindi fólk er að glíma við hverju sinni. Auðvitað eru sumir sem þurfa að taka bata sinn út í rúmlegu en svo eru aðrir sem geta farið í gegnum bataferlið með því að fara sparlega með sig og ná þannig aftur fyrri heilsu.“

Þannig þurfi það ekki endilega að þýða að fólk hafi náð fullri heilsu og starfsgetu aftur þótt það sjái sér fært að mæta á félagsfundi.

„Í okkar starfi er gríðarlega margt fólk sem er að glíma við langtímaveikindi og það mætir hér á félagsfundi og í annað félagsstarf. Langtímaveikindi geta t.d. verið tengd kulnun í starfi og þá er fólk í fríi í einhverja mánuði til að ná fyrri starfsgetu eða heilsu. Á meðan getur fólk valið að mæta þangað sem það vill og hvar það eyðir sinni orku.“

Spurð segir Þuríður ummæli Sólveigar hafa komið starfsmönnum ÖBÍ á óvart.

„Auðvitað vakti þetta einhver viðbrögð hérna en ég veit það ekki. Ég held þetta hafi kannski bara verið vanhugsað.“

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, tekur í sama streng og segir ummæli Sólveigar Önnu „svo sannarlega“ hafa komið sér á óvart.

„Mér finnst þau sorgleg og sýna virðingarleysi fyrir aðstæðum fólks,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Þá segist hann treysta því að þeir félagsmenn Eflingar sem leiti til félagsins til að fá þar aðstoð við réttindagæslu þurfi ekki að mæta viðhorfi af þessu tagi.

„Einstaklingur í veikindaleyfi hefur sem betur fer ekki stimplað sig út úr þátttöku í samfélaginu og það hlýtur að vera sjálfsagt mál að hann taki þátt í samtali um málefni sín hjá sínu stéttarfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina