Allur ágóði rennur til UN Women í Úkraínu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk í dag afhentan styrktarbol þegar átaksverkefni UN Women og 66°Norður, sem er til styrktar konum á flótta vegna innrásar Rússa í Úkraínu, var kynnt í veðurblíðunni í dag á Bessastöðum.

Meirihluti þeirra sem eru á flótta eru mæður og börn og þótti því sérstaklega mikilvægt að tryggja kvenmiðaða neyðaraðstoð. Til að efla stuðning við konur á flótta var ákveðið að hanna bol og mun allur ágóði af sölunni renna til UN Women í Úkraínu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Claessen og Iryna Kamienieva - Ірина Камєнєва -,sem er nýkomin til Íslands frá Úkraínu, eiga heiðurinn af hönnuninni sem er samsett af þjóðlegum Vyshyvanka mynstrum, sem er táknmynd fyrir vernd, og ljóði eftir úkraínsku skáldkonuna Lesia Ukrainka, sem stendur fyrir von og að gefast ekki upp.

Mikil áhersla hefur einnig verið lögð á að auka vitund fólks um þarfir og nauðsynlegan stuðning við konur á flótta og mikilvægi þess að konur fái tækifæri til að taka þátt í friðarviðræðum. Þá hafa UN Women og 66°Norður þegar hafið samstarf með aðstoð utanríkisráðuneytisins við að veita stuðning við atvinnuþátttöku flóttakvenna í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert