„Þetta er alveg í járnum að ná 12 mánaða inn“

Óvíst er hvort hægt verði að bjóða 12 mánaða börnum …
Óvíst er hvort hægt verði að bjóða 12 mánaða börnum í borginni leikskólapláss næsta haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvíst er hve mörg 12 mánaða börn komast inn á leikskóla í Reykjavíkurborg næsta haust, aðallega vegna óvæntrar fjölgunar umsókna um leikskólapláss á síðustu vikum. Bæði er um að ræða fjölgun vegna flutnings fólks til Reykjavíkur úr öðrum sveitarfélögum á landinu og flutning erlendis frá. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í vor að til stæði að byrja að bjóða 12 mánaða börnum í Reykjavíkurborg leikskólapláss í haust, en borgin stefndi meðal annars á að taka í notkun 850 ný leikskólarými á þessu ári til að ná þeim áfanga. Nú er óvíst hvort af því verði.

Eiga mögulega við ofurefli aðstæðna að etja

Langflestum leikskólaplássum fyrir haustið var úthlutað í mars síðastliðnum og fengu foreldrar þá boð fyrir börn sín um leikskóladvöl, en úthlutað er eftir kennitöluröð. Eftir þá úthlutun hafa rúmlega tvöhundruð umsóknir um leikskólapláss bæst við, sem er töluvert meira en búist var við að sögn Helga.

„Þetta er alveg í járnum að ná 12 mánaða inn, en það eru allir að leggjast á eitt og gera allt til að þetta verði raunin. Það getur verið að við séum að mæta ofurefli aðstæðna, sérstaklega út af þessari fjölgun barna. Það má alltaf búast við einhverri fjölgun en hún er mun meiri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Helgi.

„Núna þegar vinnumarkaðurinn er í þenslu þá kemur vinnuafl til landsins og einhverjir eru með börn og þá skapast svona aðstæður,“ bætir hann við.

Tafir hafa orðið á framkvæmdum við leikskólahúsnæði sem setur strik …
Tafir hafa orðið á framkvæmdum við leikskólahúsnæði sem setur strik í reikninginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa misst úr leikskólahúsnæði vegna viðhalds

Þrátt fyrir að óvænt fjölgun barna vegi þyngst er fleira sem setur strik í reikninginn, að sögn Helga. Meðal annars tafir á framkvæmdum við leikskóla, en mygla hefur komið upp á nokkrum leikskólum í borginni á síðustu misserum og hefur þurft að ráðast í miklar úrbætur víða. Nú síðast á Furuskógi í Fossvoginum og þurfti að flytja alla starfsemi þaðan og í gamla Safamýrarskólann.

„Eins líka höfum við misst úr notkun leikskólahúsnæði vegna viðhalds og því er ekki hægt að setja inn þar eins mörg börn og við gerðum ráð fyrir. Við höfum heldur ekki fengið nægar upplýsingar frá sjálfstætt starfandi leikskólum. Það er svolítið óljóst hjá okkur,“ segir Helgi.

Tafir á afhendingu vegna stríðsreksturs

Þá stendur til að opna fjóra nýja leikskóla sem kallast Ævintýraborgir og eiga að vera í færanlegum einingum. Tafir hafa hins vegar orðið á afhendingu eininganna vegna stríðsreksturs.

„Það er líka eins og með Ævintýraborgir sem við gerðum ráð fyrir að yrði komið. Allt þetta kerfi er að tefjast, efnisaðföng og annað slíkt út af stríðsrekstri, þetta hefur allt tafið fyrir okkur. Það er flutningurinn, það er stálið í þetta, allar línur og flutningakeðjur eru að tefjast. Stríðið tekur við af Covid og þetta er að gera okkur afar erfitt fyrir,“ útskýrir Helgi.

Hann segir þó unnið hörðum höndum að því þessa dagana að reyna að koma sem flestum börnum fyrir á leikskólum borgarinnar næsta haust.

„Þetta er það sem við erum að teikna upp núna og fá skýrari mynd af. Við reynum að vera komin með skýr skilaboð til fólks síðar í mánuðinum,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert