Vildu komast til Íslands eftir árásina

Þessi mynd var tekin af verslunarmiðstöðinni Field´s í gærkvöldi.
Þessi mynd var tekin af verslunarmiðstöðinni Field´s í gærkvöldi. AFP/Claus Bech

Haft hefur verið samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins út af fimm Íslendingum í Kaupmannahöfn í tengslum við skotárásina þar í borg í gær.

Fljótlega eftir árásina sendi sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn út tilkynningu á samfélagsmiðla þar sem Íslendingar á vettvangi voru hvattir til að láta sína nánustu vita af sér og ef ástæða þótti, að hafa samband við borgaraþjónustuna.

AFP/Ólafur STEINAR GESTSSON / Ritzau Scanpix

Að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, óskuðu einhverjir eftir aðstoð við að komast heim til Íslands á meðan aðrir óskuðu eftir því að fá áfallahjálp á íslensku. Allt þetta fólk var statt í verslunarmiðstöðinni þegar árásin var gerð.

Sendiráðsprestur sem starfar í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn annast áfallahjálpina.

Spurður út í framhaldið segir Sveinn: „Við höldum áfram að fylgjast grannt með og erum til aðstoðar ef þess er þörf og fólk getur haft samband við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert