Mótmæla aftur að viku liðinni

Kristín Tómasdóttir ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins …
Kristín Tómasdóttir ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Tómasdóttir, sem staðið hefur fyrir mótmælum vegna stöðunnar á innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar, segir foreldra ekki sátta með tillögur borgarráðs sem kynntar voru í dag. Húns segir foreldra vilja meira og betri svör.

Mótmælin halda því áfram á fimmtudaginn fyrir næsta borgarráðsfund og verður hústökuleikskólinn aftur opinn í ráðhúsi Reykjavíkur að sögn Kristínar.

„Við verðum að halda áfram þó við séum orðin ofboðslega þreytt á því. Við erum þreytt en við erum ekki að fara að stoppa hér. Við munum fylgja þessu eftir þangað til að börnin okkar eru komin með leikskólapláss,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.

„Við erum ekki sátt við þetta. Við viljum meira og betri svör.“

Tillögur óskiljanlegar á blaði

Borgarráð kynnti í dag sex tillögur til þess að leysa leikskólavandann. 

 „Í raun er þetta svolítið óskiljanlegt á blaði. Þar stendur að þau ætli að fjölga leikskólaplássum. Við vitum ekkert hvað það þýðir í heildar samhenginu,“ segir Kristín.

„Það er lítið um dagsetningar, eins og hvenær ætla þeir að opna þennan Korpuskóla, hvaða börn fá boð um pláss þar eða hvað felst í því. Ætla þau að vera með skólabíl þangað eða er aðstaða fyrir svona lítil börn þarna?“

Búið sé að ráðstafa peningnum

„Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar kveður á um það að þau ætli að niðurgreiða pláss fyrir börn 12 mánaða og eldri frá og með haustinu og það kostar borgina 300 þúsund krónur á mánuði fyrir hvert barn. Á meðan þessi börn eru ekki á leikskóla er Reykjavíkurborg ekki að niðurgreiða pláss fyrir þau,“ segir Kristín

Hún segir að þannig sé ekki verið að taka þennan pening frá einhverjum öðrum verkefnum. Það sé búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði.

„Ef þau myndu vilja greiða okkur þessi 300 þúsund á mánuði á meðan við erum með börnin heima í reiðileysi. Það er betra en ekkert. Mér finnst það ekki frábær lausn en þetta gæti verið bætur fyrir mistökin sem þau gerðu.“

Fagna viðleitninni

„Við fögnum því að sjálfsögðu að það eru lagðar fram tillögur á borgarráðsfundi og þær eru kynntar eftir fundinn. Auðvitað er þetta viðleitni sem ég ætla ekki að skjóta í kaf. Það sem mér finnst svo skammarlegt er að þau ætluðu ekkert að grípa til þessara aðgerða. Þau ætluðu bara að láta okkur sitja í súpunni,“ segir Kristín.

„Ég er rosalega fegin því að það verði flýtt opnuninni á Nauthólsvegi  og ég vona að þau geti staðið við það, því það varðar mitt eigið barn. Eftir standa mörg önnur börn sem  fengu engin svör um hvenær þau byrja á leikskólum eða hvernig staðan væri með þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert