Segir skilningsskort Sólveigar Önnu dapurlegan

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, segir dapurlegt að formaður Eflingar hafi ekki skilning á því að það kunni að vera félagsmönnum Eflingar í hag að læra íslensku, „frekar en búa í einöngruðum samfélögum fólks sem ekki kann íslensku.“

Þá bendir hann á að hópar í slíkri stöðu festist frekar í láglaunastörfum og taki síður virkan þátt í samfélaginu. 

„Hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa“

Eiríkur lagði til, í aðsendri grein á Vísi, á föstudag, að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum, að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma. Þá ættu atvinnurekendur að bera kostnaðinn af þeirri vinnuskerðingu sem af því hlytist. 

Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar verkalýðsfélags. Um 53 prósent félagsmanna Eflingar eru af erlendum uppruna. Var hún spurð út í þessa tillögu Eiríks í viðtali við Rúv. Lét hún þau orð falla að um væri að ræða skilaboð úr fílabeinsturni.

„Það er náttúrulega bara afskaplega undarlegt að þau sem tilheyra einhverri menntaelítu skuli ætla að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög verka- og láglaunafólks sem að augljóslega hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda íslensku þjóðtunguna,“ var meðal annars haft eftir henni. 

Vill heyra sjónarmið félagsmanna

Eiríkur segir að hugmynd hans gangi einmitt út á að draga úr vinnuálagi hins vinnandi fólks, og nýta þann tíma í íslenskunám. 

Í tillögu minni var einmitt ekki verið að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög, að öðru leyti en því að leggja til að þetta yrði hluti af kröfugerð þeirra, heldur var gert ráð fyrir að atvinnurekendur og ríkið bæru kostnaðinn.

Þá kveðst hann ekki kippa sér upp við það þótt hann sé sagður tala úr fílabeinsturni og kallaður elíta.

„Hins vegar finnst mér alltaf dálítið ódýrt og ómerkilegt að nota slík orð til að afgreiða fólk í opinberri umræðu“

Þá bætir hann við að það væri skemmtilegt að heyra sjónarmið félagsmanna Eflingar, sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. 

Getur verið að þeim finnist mikilvægt að eiga kost á íslenskunámi í vinnutíma þótt formanninum finnist það léttvægt?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert