Gagnrýnir skort á upplýsingagjöf til þingmanna

Helga Vala segist eiga rétt á að vita ef nafn …
Helga Vala segist eiga rétt á að vita ef nafn hennar kemur upp í tengslum við beina lífsógn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir hafi að ekki hafi verið hægt að fá það staðfest strax hvort nöfn einstaka þingmanna hafi komið upp við rannsókn lögreglunnar a yfirvofandi hryðjuverkaógn.

Rannsóknin leiddi til handtöku fjögurra karmanna sem taldir eru hafa ætlað sér að fremja hryðjuverk hér á landi.

Þetta kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Lögregla hefur staðfest að mennirnir hafi beint sjónum sínum að Alþingi og lögreglu.

„Látið eins og þetta kæmi okkur ekki við“ 

Helga Vala sagðist hafa fullan skilning á að ekki væri hægt gefa nema takmarkaðar upplýsingar þegar rannsókn væri í miðjum klíðum, en þingmenn fengu ekki upplýsingar um rannsóknina fyrr en skömmu áður en greint var frá málinu opinberlega. Þingmönnum og starfsfólki þingsins hafi þótt það mjög óþægilegt.

„En ég heyrði það niðri í þingi að fólki fannst mjög óþægilegt að það væri látið eins og þetta kæmi okkur ekki við. Að það þyrfti ekki sérstaklega að ræða við okkur sem vorum þó, eftir því sem Karl Steinar Valsson staðfesti seinna um kvöldið í Kastljósi, að við vorum annað megin skotmarkið. Ég tek heilshugar undir það.“

Eigi að fá að vita hvort nafn hennar kom upp

Benti hún á að stjórnmálafólk væri tekið af lífi um allan heim í hverjum mánuði, rétt eins og fjölmiðlafólk, og væri því í beinni hættu.

„Það er ógn við lýðræðið og mér finnst skrýtið að fá til dæmis ekki staðfest strax hvort nöfn einstaka þingmanna hafi verið þarna eða hvort það hafi verið eingöngu stofnunin Alþingi. Ekkert eingöngu, það er auðvitað grafalvarlegt mál. Þetta eru upplýsingar sem þarf bara að hreinsa og við eigum rétt á því að vita það,“ sagði Helga Vala. Hún ætti rétt á því að vita hvort nafnið hennar væri nefnt þegar kæmi að beinni lífsógn.

Birtingarmynd af vanræktu samfélagi

Þá sagði hún atburðinn sem slíkan því miður vera birtingarmynd af vanræktu samfélagi.

„Við þurfum að hugsa gaumgæfilega hvað við erum að gera í skólum landsins. Hvernig við erum ekki að sinna ákveðnum hópi, sérstaklega drengja. Ég hef lagt fram þingmál um það hvernig við ætlum að mæta því að háskólar landsins eru núna að útskrifa 70 prósent konur og 30 prósent karla og það félagslega misvægi sem myndast í samfélagi við þetta er stórkostlega hættulegt,“ sagði Helga Vala

„Við eigum að fara inn í það og hugsa hvað er það sem gerir það að verkum að karlar eða drengir finna sig utangátta í íslensku skólakerfi. Þeim finnst eins og þeir tilheyri ekki þarna inni, að þetta sé ekki staður fyrir þá. Þetta rosalega misvægi er óeðlilegt,“ sagði hún jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert