„Miklu meira en nóg að gera“ hjá björgunarsveitum

Fáskrúðsfirðingar binda nú lausa muni niður vegna óveðursins sem gengur …
Fáskrúðsfirðingar binda nú lausa muni niður vegna óveðursins sem gengur þar yfir. mbl.is/Albert Kemp

Veður á Austurlandi fer snarversnandi. Heilu trén hafa fokið upp með rótum á Seyðisfirði og sjónarvottar segjast aldrei hafa séð ástandið verra. Sveinn Hall­dór Odds­son Zoëga, formaður svæðis­stjórn­ar björg­un­ar­sveita á Aust­ur­landi, segir „miklu meira en nóg að gera í öllum fjörðum“ hjá björgunarsveitum.

Sveinn segir sérlega annasamt á Reyðarfirði og á Eskifirði vegna fjúkandi muna og björgunarsveitir eru að hans sögn á kafi í verkefnum þar. Þá hafi björgunarsveitarmenn einnig sinnt útköllum á Möðrudalsöræfum við að losa bíla sem sitja þar fastir. 

Sjórok herjar á Austfirði

Mikið sjórok hefur herjað á sveitarfélög á Austfjörðum en rauð viðvörun tók gildi á hádegi. Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir hviðum upp í 66 metra á sekúndu.

Frá Fáskrúðsfirði hafa einnig borist borist fregnir af miklu sjóroki og einhverjum skemmdum á lausamunum. Sjógangur er allnokkur þar og gengur upp á bryggjur á háflæði. Verið er að landa síld úr Hoffelli SU 80, um 1.000 tonnum, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Hoffell SU landar síld í dag.
Hoffell SU landar síld í dag. mbl.is/Albert Kemp

Gert er ráð fyrir að óveðrið nái hámarki í kvöld en veðurfarið er talið nokkuð óvenjulegt miðað við árstíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert