Njóta mikillar velvildar Íslendinga

Khodos og Stroginov standa hvort sínu megin við Héðin Unnsteinsson, …
Khodos og Stroginov standa hvort sínu megin við Héðin Unnsteinsson, stjórnarformann Styrktarsjóðs geðheilbrigðis. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Upphaflega var þetta sálfræðilega hjálparstarf fyrir úkraínska flóttamenn rekið í húsnæði Hvítasunnusöfnuðarins við Hátún en núna er það komið í Áskirkju. Fyrir utan sálfræðiþjónustu bjóðum við upp á jóga, myndlistarástundun, prjónaklúbb og íslenskunámskeið fyrir byrjendur.“

Þetta segir Olga Khodos sem fyrr í vikunni hlaut tveggja milljóna króna styrk úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis fyrir verkefnið Sálrænn stuðningur fyrir úkraínskt flóttafólk á Íslandi.

„Verk­efn­inu er ætlað að veita sál­ræn­an stuðning við úkraínskt flótta­fólk á Íslandi. Þrátt fyr­ir að vera komn­ir í ör­uggt skjól á Íslandi er það und­ir miklu álagi og geðræn­ar áskor­an­ir um­tals­verðar. Fjöl­skyldumiðstöðin í Há­túni hef­ur lagt verk­efn­inu til hús­næði. Þar gefst fólki kost­ur á að koma alla virka daga frá kl. 10-15 og fá stuðning á móður­máli sínu,“ sagði í umsögn um verkefnið.

„Kjarninn í þessu starfi er ég, Yaroslav Pavlyuk aðstoðarmaður minn og Konstantin Stroginov sem er móttökustjóri hjálparmiðstöðvarinnar,“ segir Khodos frá. „Þú spyrð um kveikjuna að þessu starfi, það er góð spurning. Sem Úkraínumenn berjumst við fyrir frelsi okkar, fyrir tilveru okkar. Við upplifum okkur í raun eins og hermenn þótt við höfum aldrei upplifað flugskeytaárásir eða sofið í sprengjuskýlum neðanjarðar. Við viljum gera okkar til að færa úkraínskri þjóð sigur,“ segir Khodos og þau Stroginov nefna sérstaklega samtökin Flóttafólk sem þau hafi átt mikla og góða samvinnu við.

Khodos, Stroginov og Yaroslav veita úkraínskum flóttamönnum á Íslandi sálfræðilega …
Khodos, Stroginov og Yaroslav veita úkraínskum flóttamönnum á Íslandi sálfræðilega aðstoð á þeirra tungumáli. Ljósmynd/Aðsend

Hún kemur frá Kænugarði, Stroginov frá Kerch á Krímskaga og Yaroslav frá Lviv. „Ég flutti til Íslands árið 2010, svo flutti ég út aftur 2018 og kom aftur í mars á þessu ári með Konstantin en hann kom hingað fyrst 2001 þótt hann hafi komið og farið síðan. Yaroslav hefur búið á Íslandi frá 2011,“ segir hún frá. Þau þrenningin eru öll íslenskir ríkisborgarar.

„Ég lýg engu þegar ég segi þér að Úkraínumenn hafa notið mjög mikillar velvildar Íslendinga,“ svarar Khodos, spurð út í gestgjafahlutverk íslenskrar þjóðar. „Sumir eiga reyndar eftir að upplifa íslenska veturinn en við erum algjörlega ástfangin af náttúrunni hérna og íslensku þjóðinni.“

Hún segir það koma sumum úkraínskum flóttamönnum á óvart hve vel þeim hafi verið tekið á Íslandi. „Fólk bjóst kannski ekki við miklu í bláókunnugu landi en þetta hefur farið fram úr björtustu vonum. Fólk er að gefa föt, útvega húsnæði og vinnu, það er að koma okkur inn í íslenskt samfélag,“ segir Khodos.

Flóttafólk með hagnýta reynslu

Hún kveður Úkraínumenn mjög virka þjóð sem ekki vilji sitja með hendur í skauti. „Þeir treysta á eigin mátt og megin en þurfa kannski byrjunaraðstoð í nýju umhverfi. Þar kemur íslenskt samfélag mjög sterkt inn. Við erum engin byrði á íslenskri þjóð, við komum hingað til að standa okkur og taka þátt. Hingað kemur flóttafólk með alls konar hagnýta reynslu og þekkingu. Það fyrsta sem það hugsar er að koma sér í vinnu og geta staðið á eigin fótum. Frelsi og sjálfstæði er svo ríkur þáttur í okkar þjóðarsál,“ útskýrir hún.

Hvaða þýðingu hefur framangreind styrkveiting fyrir Khodos?

„Mig langar nú fyrst og fremst til að þakka Geðhjálp fyrir rausnarskapinn. Þarna er verið að viðurkenna þessa sálfræðihjálp, viðurkenna starf okkar og mikilvægi þess. Að veita öllu þessu fólki sálfræðilega aðstoð yrði þung byrði fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Okkur finnst mikilvægt að geta veitt Úkraínumönnum ókeypis aðstoð á þeirra eigin tungumáli. Við hittum fólk og aðstoðum það utan þess vinnutíma sem við setjum okkur í Áskirkju. Vinnudagurinn okkar er stundum til átta eða níu á kvöldin,“ segir Khodos.

Útiloka ekki að fara til baka

Styrkurinn geri þeim þremenningum kleift að gefa meira í starfið, svo sem að bæta fleiri athöfnum við jógað og prjónaklúbbinn. „Okkur langar einnig að fjalla um reynslu þeirra sem orðið hafa vitni að stríði. Henni viljum við deila með öðrum, til dæmis fræðimönnum. Þessum styrk verður vel varið, nú getum við gefið okkur öll í starfið,“ segir hún enn fremur.

Spurð hvort þau sem sinna sálfræðilega hjálparstarfinu hyggist búa á Íslandi til frambúðar kveður hún þau auðvitað eiga rætur sínar auk ættingja í Úkraínu. „Það er ekki útilokað að við förum til baka þegar stríðinu lýkur en nú erum við hér og okkar bíður mikið starf á Íslandi. Konstantin vill starfa við íþróttir, hann er menntaður í rekstri íþróttafélaga, Yaroslav er sálfræðingur og hyggst skrifa meistaraprófsritgerð sína um það sem hann er að sýsla við núna. Sjálf stefni ég á doktorsgráðu í fjöldasálfræði og mannfræði. Eftir stríðið fýsir mig að fara aftur til Úkraínu og stunda þar rannsóknir á þeim sem börðust í stríðinu,“ heldur Khodos áfram.

„Við eigum okkur öll sögu af ást og hatri, hún er hluti tilveru okkar. Það sem við erum að gera núna snýst ekki bara um að hjálpa löndum okkar heldur að létta byrði íslensks heilbrigðiskerfis. Svo lengi sem við búum í þessu landi viljum við veg þess sem mestan,“ segir Olga Khodos að lokum, sem veitir úkraínsku flóttafólki á Íslandi sálrænan stuðning.

mbl.is