Grunur um að veikindi megi rekja til raka

Yfir standa rakamælingar í Norðlingaskóla.
Yfir standa rakamælingar í Norðlingaskóla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Grunur er um að veikindi tveggja nemenda á unglingastigi í Norðlingaskóla megi rekja til raka í húsnæði skólans. 

Þetta staðfestir Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri Norðlingaskóla í samtali við mbl.is.

„Okkur var tilkynnt um veikindi hjá nemendum sem grunur er um að rekja megi til raka í húsnæðinu,“ segir Aðalbjörg.

„Það standa yfir rakamælingar og sýnataka á byggingarefni. Það er ekki búið að staðfesta neinar niðurstöður varðandi það að það sé mygla. Það er verið að ná utan um rakamælingar og verið að byrja á sýnatöku. Það liggur ekkert staðfest fyrir úr sýnum,“ segir Aðalbjörg og bætir við að þetta hafi kom í ljós fyrir um viku síðan og að foreldrum hafi strax verið tilkynnt um aðstæður.

Aðalbjörg segir að verið sé að meta aðgerðir með fagaðilum og að verið sé að meta næstu skref, en það taki 4-6 vikur að fá niðurstöður úr sýnatökunum og þegar þær liggi fyrir verði staðan tekin.

Engin breyting á skólastarfi

„Það eru þegar hafnar mótvægisaðgerðir. Það er verið að kortleggja þann leka sem hefur verið í húsinu og hvernig er hægt að vinna að mótvægisaðgerðum strax. Við erum komin í fullt ferli að skoða mótvægisaðgerðir með sérfræðingum. Öll sú skipulagsvinna er hafin og við erum að fara að birta upplýsingar um það til foreldra og starfsmanna mjög bráðlega.“

Í bréfi sem sent var í síðustu viku til foreldra stendur: „Sérfræðingar á vegum umhverfis- og skipulagssviðs og skóla- og frístundasviðs munu á næstu dögum kortleggja aðgerðirnar með stjórnendum. Skoðað verður hvort hægt sé að hliðra starfseminni eitthvað til m.a. með því að loka af svæðum þar sem eru rakaskemmdir eða hvort flytja þurfi einhvern hluta nemenda sem eru í norðaustur álmunni í annað húsnæði á meðan á viðgerðum stendur.“

Ekki hefur verið nein breyting á skólastarfi síðan að veikindi nemendanna tveggja var tilkynnt skólanum og enn er kennt í öllu húsnæði skólans.

mbl.is