„Það fæðist enginn sem glæpamaður“

Tryggvi Hjaltason hefur um árabil vakið athygli á vanda ungra …
Tryggvi Hjaltason hefur um árabil vakið athygli á vanda ungra drengja í kerfinu. Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson

„Þetta er svo ótrúlega sláandi vond mynd af því hvernig staðan er hjá drengjunum okkar á Íslandi, í þessum opinberu kerfum sem við neyðum þá til að ganga í gegnum,“ segir Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs og faðir, í samtali við mbl.is.

Hann birti færslu á Facebook-síðu sinni í vikunni þar sem hann setti í samhengi vísbendingar um vaxandi fjölda alvarlegra líkamsmeiðinga hjá ungum karlmönnum og alvarlegan vanda ungra drengja í skólakerfinu, sem mælingar ár eftir ár sýni fram á.

Spáði hann jafnframt fyrir um það, miðað við þau gögn sem hann hefur skoðað undanfarin ár, að við ættum við líklega eftir að sjá í vaxandi mæli talsverðan óstöðugleika hjá ungum karlmönnum á Íslandi.

„Ég var lögreglumaður einu sinni og hef starfað fyrir dómsmálaráðuneytið og ég þekki þennan málaflokk ágætlega. Ég hef verið á götunni að handtaka unga karlmenn og rætt við þá í lögreglubíl klukkutímum saman. Ég veit alveg að það fæðist enginn sem glæpamaður,“ segir Tryggvi, en hann hefur vakið athygli á alvarlegum vanda drengja í íslensku skólakerfi um árabil.

Eðlilegt að taka umræðuna

Tryggvi birti færslu sína eftir að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lýsti yfir stríði gegn skipulagðri brotastarfsemi. Umræðan um skipulagða brotastarfsemi og hvernig megi vinda ofan af henni hefur verið hávær upp á síðkastið. Þá hefur hnífstunguárásin á Bankastræti Club og hótanir og árásir í kjölfar hennar vakið óhug og lögreglan segir mikilvægt að horfast í augu við nýjan veruleika hér á landi.

„Þess vegna finnst mér að við eigum að taka þessa umræðu núna, þegar við erum komin með þennan vanda í samfélaginu okkar sem er að vaxa og er orðinn það slæmur að við erum með ráðherra í ríkisstjórn sem þarf að lýsa yfir stríði,“ segir Tryggvi. Hann tekur þó fram að auðvitað geti þetta verið rétt hjá ráðherra, enda viti hann miklu betur hversu slæmt ástandið sé á götunum.

„En ég velti fyrir mér á móti, því þessi vandi drengjanna byrjaði mælast fyrir rúmum tuttugu árum, er það eitthvað skrýtið ef við erum með í svona langan tíma kerfi þar sem drengir útskrifast eftir tíu ár af skyldunámi, illa læsir, skilja ekki tilganginn í náminu, búa í landi þar sem eru einna minnstar líkur á að þeir klári háskólagráðu á vesturlöndunum, búa í landi þar sem er hvað mest aukning á örorku hjá 18 til 29 ára karlmönnum. Er eitthvað skrýtið þó að það verði til angi af karlmönnum sem finnst þeir vera utanveltu í samfélaginu og hefur kannski litla tryggð gagnvart samfélagsnormum og leita annarra leiða. Það er umræða sem mér finnst eðlilegt að taka.“

Fyrsta skrefið að viðurkenna vandann

En hverju þarf að breyta að mati Tryggva til að sporna við því að þessi vandi drengjanna haldi áfram að vaxa með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði.

„Ég held að fyrsta skrefið sé, sem er rosalega mikilvægt og við höfum ekki alveg náð sem samfélag, það er viðurkenna að þetta sé alvarlegt og mikið vandamál.“

Sé umræðan í kringum menntakerfið skoðuð séu ekki margir sem hafi stigið fram og viðurkennt hve slæm staðan sé, að sögn Tryggva. Þá hafi stjórnvöld ekki eyrnamerkt neitt fé vanda drengja.

„Það var samþykkt ný menntastefna til tíu ára í fyrra og það var ekki minnst á vanda drengja í henni.“

Foreldrar styðji drengina ekki nóg

Frá því Tryggvi fór að vekja athygli á vanda drengja árið 2018 hefur hann haldið fjölda fyrirlestra fyrir kennarafélög víða um land og rætt við marga kennara.

„Ég spyr rosalega oft: Af hverju haldið þið að þetta sé svona? Og það eru tvö svör sem koma eiginlega alltaf upp. Annað snýr að foreldrum, að foreldrar styðji drengina sína ekki námi eins og þeir styðja stúlkurnar sínar. Hitt er tilgangur. Kennari eftir kennara segir að drengir skilji ekki tilganginn með því að vera í skóla,“ segir Tryggvi.

„Ég held að við þurfum að byrja sem samfélag og bara: „Hei, tökum utan um drengina okkar, sýnum þeim hver tilgangurinn er með að vera í skóla og hjálpum þeim við að ná markmiðum sínum.“

mbl.is