Engar „gribbur“ og forstjórinn ekki með einkabílstjóra

Úr jóladagatali RÚV í ár sem Útlendingstofnun fjallar um á …
Úr jóladagatali RÚV í ár sem Útlendingstofnun fjallar um á vef sínum. Tekið er fram að upplýsingarnar á vef stofnunarinnar séu fyrst og fremst ætlaðar börnum og er textanum því ætlað að vera auðlesinn og auðskilinn.

Útlendingastofnun fjallar um jóladagatal RÚV, Randalín og Munda, á vefsvæði sínu. Þar er ýmsum spurningum um fólk á flótta svarað, en vefsvæðið ber yfirskriftina Tölum um fólk á flótta. Er farið yfir nokkra þætti og m.a. tekið fram að það vinni „engar gribbur hjá Útlendingastofnun“.

Fram kemur á vef stofnunarinnar, að jóladagatal RÚV í ár fjalli meðal annars um fólk á flótta.

„Það er vel tímasett því aldrei áður hafa jafn margir flúið til Íslands eins og árið 2022. Það þýðir að aldrei áður hafa jafnmörg börn á Íslandi átt bekkjarsystkin og nágranna sem hafa þurft að flýja heimalönd sín,“ segir stofnunin.

Á vefnum er að finna upplýsingar sem tengjast fólki á flótta auk þess sem farið er yfir efnisatriði fjögurra þátta.

Klárir krakkar

Tekið er fram að persónur þáttanna séu skáldaðar en áhorfendur velti því örugglega fyrir sér hvort þættirnir gætu gerst í raunveruleikanum.

„Randalín og Mundi eru klárir krakkar sem spyrja margra skynsamlegra spurninga um flóttafólk. Fullorðna fólkið í þáttunum á hins vegar oft ekki til nein svör við spurningum þeirra. Fyrir þá krakka, foreldra og kennara, sem eru að velta þessum spurningum fyrir sér, ákváðum við hjá Útlendingastofnun að taka saman upplýsingar í tengslum við efni þeirri þátta sem fjalla um málefni flóttafólks. Við vonum að upplýsingarnar nýtist sem grunnur að góðum samtölum á aðventunni og í framtíðinni.“

Í umfjöllun um fjórða þáttinn segir t.d. að þar sé forstjóri Útlendingastofnunar í viðtali hjá fréttakonu sem vilji ræða við forstjórann um undirskriftalista vegna máls Fatimu og dóttur hennar, sem á að vísa úr landi.

Enginn þurfi að vera hræddur

„Forstjórinn í þáttunum er svakaleg gribba en í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun. Það þarf því enginn að vera hræddur við að mæta í viðtöl hjá Útlendingastofnun,“ segir á vef stofunarinnar.

Auk þess er tekið fram að forstjórinn sé heldur ekki með einkabílstjóra eins og í þáttunum. 

Í umfjöllun um sjötta þáttinn segir í lokin:

„Fatima fékk ekki leyfi til að vera á Íslandi vegna þess að lögin segja að til að fá skjól þurfir þú að vera í hættu í heimalandi þínu. Hún þarf að fara af því að hún uppfyllir ekki reglurnar en ekki af því að fólkið hjá Útlendingastofnun eða einhver annar hafi eitthvað á móti henni. Það er leiðinlegt fyrir Fatimu að fá ekki að vera áfram þar sem hana langar til að búa.

Það eru ekki allir sammála um hvernig lögin um hverjir megi búa á Íslandi eigi að vera. Þingmenn á Alþingi deila oft um þessi mál. Lögin sem gilda hverju sinni er þær reglur sem fólkið hjá Útlendingastofnun þarf að fara eftir þegar það skoðar hver má vera og hvar þarf að fara. Það eru bara þingmennirnir á Alþingi sem geta breytt lögunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert