Er og verður grunnurinn að öllum samningum

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, er ánægður með stuðning við …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, er ánægður með stuðning við nýgerða samninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ánægjulegt að sjá afgerandi stuðning við nýundirritaðan kjarasamning VR og iðn- og tæknigreina. Það sé staðfesting á að samningurinn hafi verið vel úr garði gerður.

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjá að skammtímakjarasamningurinn – brú að bættum lífskjörum – nýtur yfirgnæfandi stuðnings félagsmanna í verkalýðsfélögum hringinn í kringum landið, sama hvort litið er til verkafólks, fólks í iðn- og tæknigreinum eða á meðal verslunarmanna,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

VR sé stærsta stéttafélag landsins með um 40 þúsund félagsmenn og frábært sé að sjá hversu afgerandi stuðning kjarasamningurinn hafi fengið í atkvæðagreiðslunni, en 82 prósent félagsmanna VR sem greiddu atkvæði sögðu já við samningnum.

„Það er staðfesting þess að kjarasamningurinn var vel úr garði gerður og var rétta viðbragðið í þeim aðstæðum sem við glímum við núna.“

Of snemmt að segja hvort átök verði

Hvað varðar framhaldið segir hann að þegar hafi verið markaður rammi sem verði grunnurinn að næstu samningum.

„Hvað framhaldið áhrærir er alveg ljóst að trúnaður Samtaka atvinnulífsins liggur gagnvart fólkinu, þessum 80 þúsund einstaklingum sem hafa haft kost á því að kjósa um þá kjarasamninga sem liggja fyrir hjá þessum þremur samflotum. Sá rammi sem þar var markaður er og verður grunnurinn að öllum kjarasamningum á Íslandi, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði,“ segir Halldór.

Á morgun verður annar fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA, en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagt að hún telji að menn hafi samið af sér í þeim samningum sem kláraðir hafa verið. Félagsfólk Eflingar geti ekki sætt sig við þá niðurstöðu.

Halldór segir þó of snemmt að segja til um það hvort til átaka komi í viðræðum við Eflingu.

„Það er svo sem ekki nýmæli að það séu miklar yfirlýsingar verkalýðsleiðtoga í aðdraganda kjarasamningsgerðar. Mér hefur reynst vel að spyrja að leikslokum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert