Semja ekki um „eitthvað allt annað“ við Eflingu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), fyrir fundinn í …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), fyrir fundinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við mbl.is að margt hafi komið fram á fundi sem átti sér stað við Eflingu hjá ríkissáttasemjara í dag.

„Samtök atvinnulífsins fóru yfir kjarasamninginn sem að búið er að undirrita við SGS-félögin hringinn í kringum landið. Samningurinn er að fullu sambærilegur við þau störf sem að Efling er að semja um fyrir Reykjavíkursvæðið. Við útskýrðum í smáatriðum hvaða þýðingu þessi kjarasamningur hefði fyrir félagsfólk Eflingar,“ segir Halldór. 

Hann segir að SA hafi boðið Eflingu að ganga að þeim samningi en fyrir viku síðan sendi stjórn Eflingar frá sér tilkynningu þar sem sagði að samningur SGS væri ófullnægjandi fyrir verka­fólk á höfuðborg­ar­svæðinu og á suðvest­ur­horn­inu.

„En þó undir því fororði að við værum sveigjanleg og værum alveg til umræðu um einhverjar breytingar á kjarasamningnum til að koma betur til móts við þeirra væntingar. Þannig að meginlínur kjarasamningsins hefðu verið markaðar,“ segir Halldór og bætir við að 80 þúsund manns um allt land hafa nú þegar samið við SA. 

Samtök atvinnulífsins við fundarborðið í dag.
Samtök atvinnulífsins við fundarborðið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Máti sinn raunveruleika við samninginn

„Eðli málsins samkvæmt þá lægi trúnaður Samtaka atvinnulífsins gagnvart fólkinu í landinu, sem yrðu að geta treyst því að þeir samningar sem eru stefnumarkandi – að Samtök atvinnulífsins semji síðan ekki um eitthvað allt annað við aðra hópa,“ segir hann.

Hvernig fannst þér samninganefnd Eflingar taka í ykkar tillögur?

„Ég held að margir hafi verið vísari að fundi loknum. Kjarasamningsgerð er snúin og túlkun kjarasamninga getur líka verið snúin. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hver og einn samningamaður máti sinn raunveruleika við þann kjarasamning sem liggur til grundvallar og ég lagði ríka áherslu á það á fundinum.“

Fulltrúar Eflingar mættu fylktu liði í Karphúsið í dag.
Fulltrúar Eflingar mættu fylktu liði í Karphúsið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfiðara að semja því lengra sem líður

Spurður hvort það sé mikil tímapressa á að samningar náist fyrir áramót segir Halldór að svo sé.

„Ég lagði áherslu á að það að sem okkur er að takast í þessari lotu er að láta kjarasamninga taka við af kjarasamningi. Sem þýðir að við höfum samið um afturvirkni til 1. nóvember við okkar viðsemjendur. Því lengra sem líður frá þeim tíma þá verður örðugra að semja um það,“ segir hann.

„Markmið Samtaka atvinnulífsins er að ganga frá skammtímakjarasamningi við Eflingu og við munum ekki liggja á liði okkar til þess að tryggja að svo verði. Ef viljinn er fyrir hendi þá getum við klárað kjarasamning hratt og örugglega við Eflingu. Ég skynja ákall Eflingarfólks um að þetta sé klárað hratt.“

Ríkissáttasemjari hefur boðað Eflingu og SA til fundar næsta fimmtudag, 22. desember, klukkan 9.

Samninganefnd Eflingar.
Samninganefnd Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert