Niðurstaðan ekki mælikvarði á ánægju fólks

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðurnar ekki koma á …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagar í VR hafa samþykkt nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaðar var fyrr í þessum mánuði. 82 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við samninginum, en kjörsókn var tæp 25 prósent. Sem þýðir að um 10 þúsund félagsmenn nýttu atkvæðarétt sinn.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að niðurstaðan sé mjög afgerandi.

„Þátttakan var góð, það var metþátttaka hjá okkur, þannig það er stígandi í þessu hjá okkur. Við erum mjög sátt með það því við þurftum að fá sterka niðurstöðu,“ segir Ragnar.

Niðurstöðurnar segi þó ekki endilega til um það hvort fólk sé ánægt með samninginn.

„Ég held að þetta sé ekki mælikvarði á ánægju fólks með samninginn. Ef við myndum setja sambærilega könnum um ánægju fólks með samninginn, þá kæmi hún líklega öðruvísi út.“

Koma ekki á á óvart

Hann segir niðurstöðurnar þó ekki koma á óvart í ljósi þess að um sé að ræða skammtímasamning og að viðræður um áframhaldandi langtímasamning hefjist strax eftir áramót.

„Ég held að fólk hafi bara metið stöðuna þannig, og treyst okkur sem vorum að leiða verkefnið, að lengra yrði ekki komist með skammtímasamning. Niðurstaðan gefur það til kynna að fólk treystir því mati okkar. Og líka að fólk sé mjög upplýst og meðvitað um hvað það þýði að fella samning. Þá er skammtímasamningur út af borðinu og við komin í fasa um að ræða lengri samning og að öllum líkindum einhvern átakafarveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert