„Númer eitt er að ná utan um svona stöður á markvissari hátt. Veðrátta á Íslandi verður alltaf áskorun og því má gera ráð fyrir einhverjum skakkaföllum – brýnast er þó að upplýsingamiðlun sé skýr og að fólkið sé þjónustað, ef það fer saman, þá er ekki víst að orðsporsáhættan sé mikil,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Ástandið á Keflavíkurflugvelli síðustu daga var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun. Sem kunnugt er hafa þúsundir verið þar strandaglópar vegna óveðurs og ófærðar. Lilja er ráðherra ferðamála og fór yfir það með samráðherrum sínum hversu marga umrætt ástand hefur snert og hvaða áhrif það hefur.
„Ég hef verið í góðu sambandi við flugfélögin, Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri. Niðurstaðan er að yfir tuttugu þúsund farþegar hafi fundið fyrir þessu,“ segir hún.
Lilja er á sama máli og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem sagði í Morgunblaðinu í gær að tafir sem hljótast af veðri líkt og nú valdi ekki skaða á orðspori okkar til langframa. Þeim megi líkja við verkföll á flugvöllum. Hins vegar sé mikilvægt að leysa úr málum sem fyrst og koma öllum á áfangastað.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.