Búið að tæma eina vél

Vélin frá Orlando rýmd.
Vélin frá Orlando rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

Um átta hundruð farþegar sem komu með sjö vélum Icelandair í morgun frá Norður-Ameríku sitja flestir enn fastir um borð. Að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa félagsins, hefur þó tekist að koma öllum farþegum úr einni vél með aðstoð björgunarsveita.

Í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum á Facebook kemur fram að miklar aðgerðir standi yfir á flugvellinum og að þær gangi vel. Sökum óhagstæðra veðurskilyrða þurfi þó að beita óhefðbundnum aðferðum, stórar bifreiðar séu notaðar til þess að skýla vindi frá sitgabílum sem fá þá tækifæri til eþss að leggja upp að vélunum.

Í samtali við mbl.is í morgun sagði Guðjón Helgason upplýsingafulltrúa Isavia, mældist vindur mest í 70 hnútum á vellinum. Ef vindhraði nær 50 hnútum er ekki hægt að tryggja landgöngubrýr.

Veðuraðgerðarstjórnarfundur var haldinn í gærkvöldi með flugfélögum og flugafgreiðslufyrirtækjum þar sem farið var yfir stöðuna. 

Tvær vélar bíða á akbraut

Í heildina komu átta vélar frá Norður-Ameríku í morgun en aðeins ein vél komst klakklaust til Íslands og náði að skila af sér farþegum, sú kom fram Newark. 

Icelandair hefur aflýst öllum flugferðum til og frá Evrópu en vonast til að geta haldið áætlun seinni part dags þegar flogið verður á ný til Norður Ameríku.

Flestar vélarnar eru komnar í stæði á flugvellinum en tvær bíða enn á aukbraut, að sögn Ásdísar.

Farþegarnir sem eru búnir að bíða hvað lengst lentu um klukkan sex í morgun. Er biðin því komin upp í sex klukkustundir fyrir þá þegar að þetta er ritað. Ásdís segir að mikil áhersla sé lögð á að tryggja öryggi farþega áður en vélarnar eru rýmdar.

mbl.is