„Meðferðin er fyrst og fremst að lækna húsnæðið“

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Samsett mynd

Alma D. Möller landlæknir flutti erindið „Hús og heilsa“ á ráðstefnu um rakaskemmdir og myglu í Háskólanum í Reykjavík í dag. Hún sagði erfitt að greina veikinda vegna rakaskemmda, en að „meðferðin er fyrst og fremst að lækna húsnæðið“.

Hún hóf mál sitt á að segja að það væri vissulega mjög margt ekki sé vitað um tengsl myglu og heilsu, en það væri alveg ljóst að flestir meti góða heilsu ofar öllu.

Þá tók Alma undir mál dr. Ólafs H. Wallewik, sem stóð fyrir ráðstefnunni, og sagði mikilvægt að rannsaka betur orsakir rakaskemmda í byggingum. 

Útiloka aðra sjúkdóma

Alma vitnaði í skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út árið 2009 þar sem tengsl myglu og veikinda voru viðurkennd. 

Hún sagði að þriðjungur eða fjórðungur einstaklinga sem býr í húsnæði með rakaskemmdum finnur fyrir einhverjum einkennum, 10% getur ekki búið í rakaskemmdu húsnæði og örfáir eru með raunverulegt ofnæmi. 

Alma sagði einkenni fólks vera margskonar. Oft væru um flensulík einkenni eða einkenni í öndunarfærum. Þá nefndi hún einnig kláða í húð og augum, síþreytu og einkenni út frá taugakerfi svo sem heilaþoku. 

Hún sagði þessi einkenni þó eiga við marga aðra sjúkdóma, svo oft væri erfitt að tengja einkennin við rakaskemmd í húsnæði. Því væri fólk oft sent til alls konar lækna.

Fá meðferðarúrræði

Alma nefndi að ekki væru til nein sértæk greiningarpróf, heldur væri best að átta sig á tengslum einstaklingsins við rakaskemmt húsnæði.

Hún sagði að orsök veikinda fólks vegna dvalar í rakaskemmdu húsnæði væru flókið samspil erfða, umhverfis og utanaðkomandi þátta svo sem efni sem örva ónæmiskerfið, þ.e.a.s. efni frá bakteríum, sveppum og skemmdu byggingarefni. 

Þá nefndi hún að læknisfræðileg meðferðarúrræði væru fá, en erlendis væru til lyf sem verið er að prófa. 

Tilfellum muni fjölga 

Alma sagði að ef rakaskemmd sé til staðar sé mikilvægt að þétta, stöðva raka og fjarlægja skemmt byggingarefni. Einnig að tryggja góð loftskipti og þrif. 

Hún nefndi að landlæknisembættið hafi skipað fagráð í júní árið 2020 vegna fjölda fyrirspurna fólks um veikindi af völdum myglu og rakaskemmda. Fagráðið hefur það hlutverk að útbúa leiðbeiningar og ráðleggingar, ásamt því að fræða heilbrigðisstarfsfólk og almenning. 

Alma sagði vinnu hópsins hins vegar hafa dregist vegna heimsfaraldursins.

„Heilsa er mál samfélagsins alls,“ sagði Alma að lokum og bætti við að það kæmi henni ekki á óvart ef veikindi vegna myglu yrðu algengari, sérstaklega vegna hlýnunar jarðar. 

mbl.is