Sýknaður af ákæru um nauðgun

Manninum var gefið að sök að hafa haft samræði við …
Manninum var gefið að sök að hafa haft samræði við konu í bifreið við Gróttu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru af nauðgun, en ósannað þótti að maðurinn hefði haft samræði við konu án hennar samþykkis. Þá var einkaréttarkröfu einnig vísað frá dómi. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 12. janúar en var birtur í gær, að héraðssaksóknari hafi ákært manninn fyrir nauðgun aðfararnótt 9. október 2021, en maðurinn neitaði sök.

Honum var gefið að sök að hafa haft samræði við konu í bifreið við Gróttu á Seltjarnarnesi án hennar samþykkis. Hann hafi komið fram sínum vilja með hótunum, ofbeldi og ólögmætri nauðung. Þá segir að maðurinn hafi hótað konunni lífláti og líkamsmeiðingum. 

Í dómi héraðsdóms segir, að maðurinn og konan hafi verið sammála um atburðarásina í megindráttum að því leyti að þau hafi hist þetta kvöld ásamt vinum sínum og endað tvö í bifreið mannsins. Þá hefði konan fyrr um kvöldið sýnt áhuga á því að fá að aka bifreið hans og ekið bifreiðinni á Seltjarnarnesi. 

Rætt um að maðurinn myndi gefa konunni bifreið fyrir kynmök

Þá kemur fram, að ekki liggi annað fyrir en að farið hafi ágætlega á með manninum og konunni fyrr um kvöldið og þau ákveðið að fara saman í bíltúr samkvæmt því sem konan bar um, en maðurinn sagði þau hafa ætlað að sofa saman.

Í dómnum segir, að maðurinn og konan hafi bæði borið um að á milli þeirra hefði það verið rætt að maðurinn myndi gefa henni bifreið fyrir kynmök, annaðhvort bifreiðina sem hann var á eða aðra bifreið og nefndi konan einnig peninga í þessu samhengi. Í framburði sínum hjá lögreglu nefndi konan einnig að maðurinn hefði hótað því að nauðga henni og drepa hana samþykkti hún þetta ekki. Í framburði mannsins kom fram að það hefði þó aldrei verið ætlun hans að gefa henni bifreið og hjá konunni að hún hefði ekki haft áhuga á að hafa kynmök við manninn.

Bar konan um að maðurinn hefði síðan ráðist að henni með ofbeldi og hann bæði haldið henni og slegið hana ítrekað í andlitið og neytt hana til samræðis en maðurinn sagði konuna hafa tekið þátt í samræðinu. Konan sagði hann ýmist hafa hætt að hafa samræði við hana vegna óláta í henni, vegna þess að hún hefði ekki verið viljug eða að annar einstaklingur hefði sífellt verið að hringja í hana. Maðurinn kvaðst hins vegar hafa haft samræði við konuna með samþykki hennar og hafnaði því að hafa beitt hana ofbeldi. Þá kvaðst hann hafa hætt samræði við konuna þegar hún sagði honum að hætta. Einnig kom fram hjá honum að konan hefði sagt að hún vildi fá bifreiðina strax og hætt samræði af því að hann neitaði henni um það.

Verði að njóta vafans í málinu

Í niðurstöðu dómsins segir, að maðurinn og konan hafi bæði borið, á mismunandi veg þó, um samtal þeirra þess efnis að konan fengi bifreið gegn kynmökum.

„Með vísan til þess telur dómurinn að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að fyrir hafi legið einhvers konar samþykki brotaþola til kynmaka þegar þau hófust. Við meðferð málsins hefur ekki verið sýnt fram á að brotaþoli hafi látið í ljósi við ákærða með orðum eða á annan hátt áður en kynmökin hófust að sú afstaða hennar væri breytt. Þá er ekkert fram komið, utan framburðar brotaþola hjá lögreglu, sem bendir til þess að samþykki brotaþola hafi ekki verið tjáð af frjálsum vilja en brotaþoli sagði ákærða hafa hótað henni til að gera slíkt samkomulag. Eins og atvikum er háttað verður ákærði að njóta þess vafa sem er uppi hvað þetta varðar,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Þá segir, að við skoðun á konunni hafi engir áverkar fundist er hefðu getað varpað ljósi á atvik. Konan reyndist ekki heldur vera með áverka á andlitinu eftir meint ítrekuð högg. Vitni sem komu fyrir dóminn bera öll um að konan hafi verið í uppnámi. Einnig var til þessa að líta að sálfræðingur sem konan leitaði til rakti áfallaeinkenni hennar til atviksins. 

Framburður beggja stöðugur frá upphafi

Tekið er fram í dómnum, að framburður mannsins og konunnar hafi frá upphafi verið stöðugur. Ekkert hafi komið fram sem rýri sérstaklega trúverðugleika þeirra hvað varðar þau meginatriði er máli skipta við mat á sönnun. Það er þó mat dómsins, að ósannað sé að maðurinn hafi haft samræði við konuna án samþykkis hennar.

„Er þannig ekkert fram komið sem bendir til þess að ákærði hafi fyrir samræðið haft réttmæta ástæðu til að ætla að samþykki brotaþola lægi ekki fyrir. Þá eru ekki fram komin nein þau gögn sem þykja styðja þann framburð brotaþola að ákærði hafi beitt hana ofbeldi umrætt sinn, þ.e. slegið hana ítrekað í andlitið eða haldið henni niðri með valdi. Loks liggja fyrir orð brotaþola gegn orðum ákærða um að hann hafi hótað henni eða beitt hana ólögmætri nauðung, þ. á m. með hótunum vegna stöðu hennar sem [...]. Í ljós alls framangreinds og þegar málsgögn eru metin heildstætt telst þannig ósannað að ákærði hafi með hótunum, ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði við brotaþola án hennar samþykkis,“ segir í dómnum og maðurinn því sýknaður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert