„Þetta er bara ekki réttlátt“

Eflingarfélagar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu …
Eflingarfélagar sem starfa við akstur olíuflutningabíla hjá Skeljungi og Olíudreifingu í félagsheimili Eflingar. Ljósmynd/Efling

„Það er kominn tími til að þessi réttindi verði metin til launa, krafan er 670 krónur á tímann til viðbótar við þau laun sem við höfum í dag,“ segir Örvar Þór Guðmundsson, olíuflutningabílstjóri og trúnaðarmaður Eflingar innan Olíudreifingar.

Hann segir svokölluð ADR-réttindi ekki metin til launa á Íslandi, en þau réttindi þurfa allir sem aka með hættuleg efni, eins og til að mynda eldsneyti.

Bílstjórar með réttindin í öðrum löndum fái greitt sérstaklega fyrir. Á þetta hafi verið bent alveg síðan ADR varð að alþjóðlegum staðli í kringum aldamótin.

Tilbúnir að nota verkfallsvopnið

„Ég er búinn að keyra 40 þúsund lítra í dag í Búðardal, Reykhóla og annað á mjóum vegum. Það eru ýmsar hættur sem slíkur farmur hefur í för með sér,“ segir Örvar.

„Ég tók það að mér að koma á samstarfi á milli bílstjóra hjá Olíudreifingu, Skeljungs og Samskipa. Við trúnaðarmenn þessara fyrirtækja höfum komist að því samkomulagi að koma af stað kröfu um að við fáum greitt sérstaklega fyrir þessi réttindi.“

Örvar segir bílstjóra tilbúna að nota verkfallsvopnið.

„Almennt séð þá er mín skoðun sú að mismunur sé milli þjóðfélagsstétta. Fyrirtækjaeigendur og fyrirtækjarekendur hafa aukið hagnað sinn um 60% á árunum 2018-2022.

Þeir ýta öllum kostnaði út í samfélagið og auka verðbólguna á sama tíma og þeir biðja launafólk að sýna aðhald til þess að minnka verðbólguna.

Þetta er bara almenn umræða í samfélaginu og þetta er bara ekki réttlátt,“ segir Örvar.

Samráð milli Eflingar og bílstjóra

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Efling hafi verið í góðum og miklum samskiptum við bílstjórana. Hún segir fullt samráð hafa verið við þá um verkfallsboðun í samninganefnd Eflingar.

„Fulltrúar þessa hóps hafa á síðustu vikum og mánuðum skipað sér í framvarðasveit Eflingar og sýnt þann nauðsynlega baráttuvilja sem þarf til þess að geta á endanum skrifað undir Eflingarsamning sem hentar Eflingarfólki,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is.

Fyrirhugaðar aðgerðir olíuflutningabílstjóra verða kynntar á sameiginlegum fundi bílstjóra frá Olíudreifingu, Skeljungi og Samskipum annað kvöld.

Ráðgert er að kosning um hugsanlegt verkfall hefjist á föstudag.

mbl.is