Finna ekki hitamælana

Mynd tekin úr leiðangri TF-SIF yfir Öskjuvatn í síðustu viku.
Mynd tekin úr leiðangri TF-SIF yfir Öskjuvatn í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Hitamælarnir, sem var kastað ofan í Öskjuvatn í leiðangri jarðvísindamanna með TF-SIF í síðustu viku, finnast nú ekki. 

„Þeir eru einhvers staðar undir ísnum þannig að við erum að hugsa um að setja fleiri mæla,“ segir Ármann Höskuldsson, eld­fjalla­fræðing­ur hjá jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, sem fór í leiðangur yfir vatnið í gær um borð í þyrlu.

Ármann vonar að næstu mælar verði með GPS-senditæki en smíða þarf búnaðinn frá grunni og það tekur nokkurn tíma. 

„Vonandi náum við að setja einhverja mæla niður áður en eldgosið byrjar.“

Telur ólíklegt að veðrið hafi orsakað bráðnunina

Eins og mbl.is hefur áður fjallað um er ísþekjan yfir Öskjuvatni að hörfa. Telja jarðvísindamenn að bráðnunina megi rekja til aukins jarðhita.

Þá hafa einhverjar getgátur verið uppi um að veðurfarið hafi haft áhrif á bráðnunina, þ.e. að hvass vindur komi af stað lóðréttri blöndun í vatninu. Þá getur varminn í vatninu sjálfu nægt til að bræða ísinn.

Ármann telur þó líklegra að meiri hiti sé að koma upp um sprungur á botni vatnsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert