Efling segir að World Class taki ekki þátt í verkbanni

Verk­bannið hefst að öllu óbreyttu hefjast á há­degi fimmtu­dag­inn 2. …
Verk­bannið hefst að öllu óbreyttu hefjast á há­degi fimmtu­dag­inn 2. mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

World Class, Te og Kaffi og KFC eru, að sögn Eflingar, á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa lýst því yfir við starfsfólk sitt að þau ætli ekki að taka þátt í verkbanni Samtaka atvinnulífsins (SA) sem á að hefjast á fimmtudag. 

Þetta kemur fram á vef Eflingar og er samkvæmt könnun sem stéttarfélagið setti fram á vefsíðu sinni í gær. 

Þetta hefur þó ekki verið staðfest af fyrirsvarsmönnum fyrirtækjanna og könnuninni var þannig háttað að hver sem er gat skilað þar inn svörum. 

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, hefur síðan hafnað þessu alfarið í samtali við mbl.is. 

Í tilkynningu Eflingar segir að á þriðja hundrað félaga í Eflingu hefðu svarað könnunni þar sem spurt var hvaða upplýsingar fyrirtæki hafi veitt starfsfólki um hvort verkbanni SA verði hlýtt eða ekki.

Samkvæmt könnunni hafa 13 fyrirtæki sagt starfsfólki sínu að þau ætli ekki að taka þátt í verkbanninu, en auk fyrrnefndra fyrirtækja eru það Nings, Gleðiheimar, Garðlist, Serrano, IceTransport, Iðnmark, Fagkaup, Vaka hf., Gólflagnir ehf. og Loftorka Reykjavík. 

Í yfirlýsingu sem SA sendi frá sér á fimmtudag kom fram að ein­stak­ir at­vinnu­rek­end­ur og starfs­fólk sem verk­bann bein­ist gegn hafa ekki val, frek­ar en í til­viki verk­falla um það hvort hlíta skuli lög­mætu verk­banni. Slíkt fel­ur í sér brot á 18. gr. vinnu­lög­gjaf­ar­inn­ar.

Össur, Eimskip og N1 taki þátt 

Samkvæmt Eflingu eru Össur, Eimskip, N1 og Ölgerðin meðal þeirra fyrirtækja sem hafa lýst yfir að þau ætli að taka þátt í verkbanninu. 

Coca Cola á Íslandi, Samskip, Securitas og Dominos eru á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa ekki veitt starfsfólki sínu upplýsingar samkvæmt könnunni. 

Nöfn fyrirtækjanna eru birt með fyrirvara um að hér er um að ræða upplýsingar sem ekki koma frá fyrirtækjunum sjálfum heldur úr nafnlausum svörum félagsfólks,“ segir í tilkynningu Eflingar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert