Um 400 manns hlupu með Berki

Börkur Reykjalín Brynjarsson hljóp í sex tíma í gær til …
Börkur Reykjalín Brynjarsson hljóp í sex tíma í gær til styrktar Píeta samtakanna. Ljósmynd/Aðsend

Börkur Reykjalín Brynjarsson, utanvegahlaupari, hljóp í sex klukkustundir samfleytt til styrktar Píeta samtökunum. Hann hóf hlaup á hlaupabrautinni á Varmárvelli í Mosfellsbæ klukkan níu í gærmorgun og hætti ekki að hlaupa fyrr en klukkan sló þrjú um eftirmiðdag.

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaðaMikill fjöldi mætti til þess að hlaupa með Berki og hann segir að um 300-400 manns hafi látið sjá sig á hlaupabrautinni til þess að hlaupa með Berki.


„Ég er eiginlega gapandi,“ segir Börkur um manngrúann sem slóst í hópinn „[Ég er] orðlaus yfir því sjálfur hversu vel þetta gekk.“ Hann bætir við að það hafi verið vel yfir hundrað manns í upphafi og síðan hafi bæst vel í hópinn kl. 10 og aftur kl. 11. Síðan fækkaði í hópnum eftir því sem leið á daginn.

Missti vini vegna sjálfsvígs

Börkur hefur átt tvo vini sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Fyrir örfáum árum átti hann í samræðum við náinn vin sinn sem taldi sér trú um það að dætrum sínum væri betur borgið í lífinu ef hann væri ekki til staðar. Hann greinir frá því í færslu á Facebook.

„Þessi vinur minn er sá sem ég get best hallað mér upp að ef ég er í andlegum vanda og hefur unnið við sjúkraflutning, komið að sjálfsvígum og talað fólk úr sjálfsvígum og hefur mikla reynslu af sálfræðilegum fræðum.“ skrifar hann í færsluna.

Hann segir að þegar svona maður er kominn á slíkan stað hljóti þetta að vera einn alvarlegasti sjúkdómur sem hægt sé að hugsa sér.

„Þess vegna er ég að þessu, ég vil auka vitneskju fólks um Píeta samtökin, en til þeirra getur þú leitað allan sólahringinn og fengið þá hjálp sem þú þarft. Það er engum vísað frá og allir fá hjálp sem vilja. En fyrsta skrefið er að fólk viti hvert það á að leita.“

Börkur Reykjalín Brynjarsson, til hægri, á hlaupum.
Börkur Reykjalín Brynjarsson, til hægri, á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Rúmri milljón króna safnað

Í samtali við mbl.is segist Börkur vera þreyttur og stirður efir hlaupin. „Ég er alveg með strengi og aðeins stífur“ segir hann „En ég fór í pottinn eftir þetta í gær og svo aftur í morgun, þannig maður er aðeins búinn að mýkja sig upp.“

Hann hefur það eftir fólki úr Píeta að hlaupið hans hafi safnað rúmri milljón króna. Þó segir hann söfnunina sjálfa ekki endilega hafa verið það sem máli skipti. „Söfnunin var svona aukaatriði í raun og veru. Mikilvægast var að láta málefnið koma fram— fyrir hvað Píetasamtökin standa.“

Hann kveðst þó afar sáttur með þá upphæð sem safnaðist, enda sé ekki um neina smápeninga að ræða. „Það að safna pening er bónus en þetta er náttúrulega framar vonum í öllu.“

Þriðja hlaupið hans Barkar

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem hann hleypur fyrir Píeta samtökin, heldur hljóp hann einnig árin 2021 og 2022.

„Árið 2021 hljóp ég 100 kílómetra,“ segir hann. „Þá safnaðist tæplega milljón.“ en mbl.is greindi frá því á sínum tíma.

„Árið 2022 ætlaði ég mér að hlaupa fimm sinnum 50 mínútur,“ og segir að það hafi verið í tilefni þess að hann væri fimmtugur á því ári. Það hafði þó reynst erfiðara en við var búist, þar sem hann segist hafa verið búinn að missa hluta af hlaupaþoli sínu en hljóp þó einhverja 35 kílómetra.

Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að þátttakan í gær hafi verið sú mesta af þeim þremur skiptum sem hann hefur hlaupið fyrir málefnið. „Veðrið hjálpar líka.“ segir hann blíðviðri var í Mosfellsbænum í gær.

Maður þarf ekki að vera neinn hlaupajaxl

Börkur segir að hugmyndin á bak við það að hlaupa maraþon á sex tímum væri sú að fleiri gætu tekið þátt. „Við vorum búin að stilla þessu þannig upp að þú gætir bara komið og tekið nokkra hringi.“

„Þú færð betri líðan út úr þessu,“ segir hann. „Þú þarft ekkert að hlaupa tuttugu kílómetra eða fjörutíu kílómetra. Við erum öll á misjöfnum stað og það er mikilvægt að fólk sé að nýta sér hreyfinguna sem geðlyf.“

„Það er alveg hægt að fara út að hlaupa þó þú sért ekki einhver hlaupajaxl.“

mbl.is