Willum hitti heilbrigðisráðherra Grænlands

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Mimi Karlsen, heilbrigðisráðherra Grænlands.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Mimi Karlsen, heilbrigðisráðherra Grænlands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra Íslands, og Mimi Karlsen, heilbrigðisráðherra Grænlands, ræddu samstarf á sviði heilbrigðismála á fundi sem fram fór í liðinni viku. Á fundinum var rætt um árangur samstarfins en einnig hvernig hægt væri að efla það enn frekar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Samstarf landanna á sviði heilbrigðismála hefur verið um árabil. Grænland er strjálbýlasta land veraldar með aðeins 57.000 íbúa. Íbúar þurfa því oft að fara alllangar vegalengdir til þess að fá mikilvæga þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu.

Í samstarfi Grænlands og Íslands er m.a. samningur um bráðaþjónustu við íbúa á austurströnd Grænlands, þar sem Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir nyrstu byggðinni í Scoresbysundi og Landspítalinn tekur á móti bráðatilvikum af Tasiilaq-svæðinu.

Þar eru sérstaklega nýfædd börn sem þurfa skjóta meðhöndlun og gjarnan hjartasjúklingar í neyð. Á ári hverju koma einnig nokkur bráðatilfelli af vesturströndinni á Landspítala.

Skoða möguleika á fjarheilbrigðisþjónustu

Mimi segir að Grænland stefni á að leggja aukna áherslu á fjarlækningar og uppbyggingu háhraðatenginga á næstu árum. Willum Þór bendir á að hröð þróun á sviði heilbrigðistækni skapi mörg tækifæri, t.d. á sviði fjarheilbrigðisþjónustu, og að löndin geti bæði notið góðs af því að vinna saman í þeim málum.

Fundurinn var hluti af dagskrá formennskuárs Íslands í norrænu ráðherranefndinni og fylgdi fundi norrænna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra sem fram fór á miðvikudag. Daginn eftir hófst norræn ráðstefna um geðheilbrigðismál í Hörpu, með pallborðsumræðum heilbrigðisráðherra Norðurlandaþjóðanna.

mbl.is