Meta tjón og aðstæður í dag

Strax í birtingu var farið í að kanna ástandið í …
Strax í birtingu var farið í að kanna ástandið í Fjarðarbyggð. Ljósmynd/Landsbjörg

Nóttin gekk vel í Fjarðabyggð að sögn Víðis Reyn­is­sonar, yf­ir­lög­regluþjóns al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra. „Það var enginn á ferli náttúrulega og það var notað tækifærið til að opna vegi á Austurlandi, en einhverjir vegir bíða þó útaf snjóflóðahættu,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

Strax í birtingu var farið í að kanna ástandið í Fjarðabyggð. Drónum var flogið um svæðið og myndir teknar af giljunum og öðrum þekktum stöðum þar sem flóð höfðu fallið.

Nú er verið að vinna úr þeim gögnum og gerir Víðir ráð fyrir að fá góðar upplýsingar um stöðuna um níuleytið og mat Veðurstofunnar hvort að hættan sé liðin hjá eða hvort hún sé enn viðvarandi á einhverjum stöðum. 

Hann segir að viðbragðaðilar undirbúi að klára hreinsun á svæðinu ef aðstæður séu metnar svo að það sé óhætt. 

Þá verði þau hús sem hafa orðið fyrir tjóni skoðuð en starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga er komið austur. 

„Síðan þarf auðvitað að fara í verðmætabjörgun á þeim húsum þar sem að rúður brotnuðu í gær og reyna að minnka tjónið.“

Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjóns al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra.
Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjóns al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra. mbl.is/Ásdís

Fáir gist í fjöldahjálparmiðstöðvunum 

En er rýming enn í gildi?

„Já, það verður endurskoðað í ljósi þeirra upplýsinga sem er verið að safna núna. Vonandi vitum við meira á milli 9 og 10.“

Spurður hvort að margir hafi því þurft að gista í fjöldarhjálparmiðstöðvunum á Seyðisfirði og í Neskaupstað segir Víðir að langflestir hafi gist hjá fjölskyldu og vinum. 

Kort/mbl.is

„Það voru ekki margir sem þurftu að gista í fjöldahjálparmiðstöðvunum. Við áttum von á því að það gætu verið allt að hundrað manns, en það varð umtalsvert færra sem þurfti að gista. Fólk opnaði heimili sín og tók inn vini og kunningja. Samfélagið lagðist á eitt að ná utan um þetta. Það er bara mjög gott,“ segir hann. 

Víðir minnist á að ekki sé góð veðurspá framundan og því þarf að meta aðstæður eftir henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert