Þyrluflugmenn vildu ekki hlaupa í skarðið

Þyrla Landhelgisgæslunnar. Mynd úr safni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ekki tókst að fullmanna áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun þegar óskað var eftir aðstoð vegna rútuslyss í Öræfum. Flugmenn á frívakt fengust ekki til að hlaupa í skarðið þegar senda þurfti áhöfn í hvíld, líkt og flugöryggisreglur kveða á um.

Vegna kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og íslenska ríkisins hefur að undanförnu reynst erfiðara fyrir Landhelgisgæsluna að kalla út flugmenn á frívöktum við aðstæður sem þessar. Í morgun var þyrlan því ekki til taks þegar útkallið barst.

Þetta kemur fram í svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn mbl.is.

Vert er að taka fram að aðeins var óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna langra flutningsvegalengda, en ekki vegna alvarleika áverka hinna slösuðu. Þrír farþegar voru fluttir með sjúkrabíl til Hafnar í Hornafirði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Enginn þeirra var með lífshættulega áverka.

Sleitulaus viðvera í sólahring

Mikið álag hefur verið á þyrlusveit Landhelgisgæslunnar undanfarinn sólahring vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum og hefur viðvera nánast verið sleitulaus.

„Sú áhöfn sem hefur verið á vakt í vikunni var nær sleitulaust við vinnu frá klukkan átta í gærmorgun til átta í morgun. Eins og flestum er kunnugt hefur sú mikla viðvera verið vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum og sömuleiðis vegna útkalls í nótt þar sem ferðamenn lentu í sjálfheldu á Suðurlandi. Við lok útkallsins í morgun reyndist nauðsynlegt að senda áhöfnina í hvíld eins og flugöryggisreglur kveða á um. Þá var sú staða komin upp að flugstjóra vantaði til að hægt væri að fullmanna þyrluáhöfn,“ segir í svarinu til mbl.is.

Fyrr í dag var greint frá því að aðeins ein þyrla væri til taks hjá Landhelgisgæslunni. Sömu­leiðis hafi aðeins ein áhöfn verið til taks und­an­farið í stað tveggja eins og miðað er við.

Ásgeir segir að yfirleitt hafi tekist að manna áhöfn þyrlunnar við aðstæður sem þessar, en það hafi ekki verið raunin í morgun.

„Í gegnum tíðina hefur það verið svo að Landhelgisgæslunni hefur í flestum tilfellum tekist, vegna einstaks velvilja starfsfólks, að manna áhafnir við slíkar aðstæður með því að fá fólk sem er í fríi til að hlaupa í skarðið. Því miður tókst það ekki í þetta sinn,“ segir Ásgeir.

Ásgeir Erlendsson, upp­lýs­inga­full­trúi Land­helg­is­gæsl­unn­ar.
Ásgeir Erlendsson, upp­lýs­inga­full­trúi Land­helg­is­gæsl­unn­ar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Erfiðara að manna vaktir vegna kjaradeilu

Íslenskir atvinnuflugmenn hafa verið kjarasamningslausir í á fjórða ár og samkvæmt heimildum mbl.is eru flugmenn farnir að neita að mæta á vakt þegar þeir eru í fríi. Ásgeir staðfestir að það sé orðið erfiðara að kalla út mannskap á frívöktum.

„Svo virðist vera sem kjaradeila íslenska ríkisins og Félags íslenskra atvinnuflugmanna hafi að undanförnu haft þær afleiðingar að erfiðara sé fyrir Landhelgisgæsluna að kalla út flugmenn af frívöktum til að annast útköll við aðstæður sem þessar,“ segir Ásgeir, en klukkan 22 í kvöld verði aftur fullmönnuð áhöfn til staðar til að sinna þyrluútköllum.

mbl.is

Bloggað um fréttina